Viðskipti innlent

Við­skipta­jöfnuður já­kvæður um 62 milljarða króna

Árni Sæberg skrifar
Þjónustujöfnuður var jákvæður um 150 milljarða króna. Það má að mestu leyti rekja til erlendra ferðamanna.
Þjónustujöfnuður var jákvæður um 150 milljarða króna. Það má að mestu leyti rekja til erlendra ferðamanna. Vísir/Vilhelm

Á þriðja ársfjórðungi 2023 var 61,8 milljarða króna afgangur á viðskiptajöfnuði við útlönd. Það er 60,8 milljörðum króna betri niðurstaða en ársfjórðunginn á undan og 39,7 milljörðum króna betri en á sama fjórðungi árið 2022

Þetta kemur fram í nýbirtum upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands sem sýna bráðabirgðayfirlit yfir greiðslujöfnuð við útlönd á þriðja ársfjórðungi 2023 og erlenda stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.

Þjónusta vegur þungt

Þar segir að halli á vöruskiptajöfnuði hafi verið 94,2 milljarðar en 150,3 milljarða króna afgangur hafi verið á þjónustujöfnuði. Frumþáttatekjur hafi skilað 18,8 milljarða króna afgangi en rekstrarframlög 13,1 milljarðs króna halla.

Lakari afkoma erlendra fyrirtækja eykur afganginn

Í skýringum með upplýsingunum segir að betri niðurstaða viðskiptajafnaðar miðað við sama ársfjórðung árið 2022 skýrist meðal annars af hagstæðari niðurstöðu frumþáttatekna, sem nemi 34,2 milljörðum króna. Það sé að mestu leyti til komið vegna lakari afkomu fyrirtækja í erlendri eigu sem flokkast undir beina fjárfestingu.

Einnig hafi verið aukinn afgangur af þjónustuviðskiptum, sem nemi 32,4 milljörðum króna. Á móti vegi að halli af vöruviðskiptum jókst um 24,6 milljarða króna og af rekstrarframlögum um 2,2 milljarða króna.

Hrein staða jákvæð um 1.272 milljarða

Þá segir að í lok ársfjórðungsins hafi hrein staða við útlönd verið jákvæð um 1.272 milljarða króna, eða 31,2 prósent af vergri landsframleiðslu, og batnað um 145 milljarða króna eða 3,6 prósent af vergri landsframleiðslu á fjórðungnum. 

Erlendar eignir þjóðarbúsins hafi numið 5.286 milljörðum króna í lok ársfjórðungsins en skuldir 4.014 milljörðum króna. Á fjórðungnum hafi staðan batnað um 74 milljarða króna vegna fjármagnsviðskipta en erlendar eignir hækkað um 216 milljarða króna og skuldir um 142 milljarða króna. 

Gengis- og verðbreytingar hafi lækkað virði eigna á ársfjórðungnum um 103 milljarða króna og skulda um 184 milljarða króna og því leitt til 80 milljarða króna betri hreinnar erlendrar stöðu. Gengi krónunnar hafi hækkað um tæp tvö prósent miðað við gengisskráningarvog. Verð á erlendum verðbréfamörkuðum hafi hækkað um 0,7 prósent milli fjórðunga en verð á bréfum á innlendum hlutabréfamarkaði lækkað um 1,1 prósent.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×