Viðskipti innlent

Hægir veru­lega á hag­vexti

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Samdráttur í einkaneyslu var 1,7 prósent á þriðja ársfjórðungi.
Samdráttur í einkaneyslu var 1,7 prósent á þriðja ársfjórðungi. Vísir/Vilhelm

Verulega hægir á hagvexti á þriðja ársfjórðungi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofunni.

Þar segir að samkvæmt niðurstöðum þjóðhagsreikninga sé áætlað nafnvirði vergrar landsframleiðslu (VLF) um 1080,3 milljarðar króna á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Vöxtur hennar, sumsé hagvöxtur, mælist á föstu verðlagi um 1,1 prósent miðað við sama tímabil í fyrra.

Á fyrstu níu mánuðum ársins mælist verg landsframleiðsla að raunvirði um 4,2 prósent meiri en á sama tíma í fyrra. Áætlað er að þjóðarútgjöld á þriðja ársfjórðungi hafi dregist saman um 1,2 prósent smaanborið við þriðja ársfjórðing í fyrra.

Af undirliðum þjóðarútgjalda er áætlað að einkaneysla hafi dregist saman að raunvirði um 1,7 prósent og fjármunamyndun um 4,3 prósent. Hins vegar er talið að samneysla hafi aukist um 2,3 prósent að raunvirði samanborið við þriðja ársfjórðung 2022.

Samdráttur í einkaneyslu um 1,7 prósent

Á þriðja ársfjórðungi er áætlað að framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar hafi mælst jákvætt um 2,2 prósent og að afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði hafi numið um 5,2 prósent af VLF samanborið við 4,8 prósent á sama ársfjórðungi í fyrra.

Niðurstöður þjóðhagsreikninga gefa til kynna að árstíðaleiðrétt landsframleiðsla hafi dregist saman um 3,8 prósent að raunvirði á milli annars og þriðja ársfjórðungs þessa árs.

Á þriðja ársfjórðungi 2023 dróst einkaneysla saman um 1,7 prósent að raunvirði sem er skarpur viðsnúningur borið saman við sama tímabil árið 2022. Á fyrstu níu mánuðum líðandi árs jókst einkaneysla um 1,3 prósent að raunvirði frá fyrra ári. Útgjöld Íslendinga erlendis sýna áframhaldandi samdrátt og einnig hægðist á annarri innlendri neyslu. Töluverður samdráttur mælist í kaupum ökutækja eða 5,2 prósent en það er liður sem vegur talsvert í neysluútgjöldum heimilanna.

Nánar á vef Hagstofunnar.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×