Viðskipti innlent

Fjöru­tíu prósent þjóðarinnar færðust um á­hættu­flokk um láns­hæfis­mat

Jón Þór Stefánsson skrifar
Sextíu prósent Íslendinga stóðu í stað, en fjörutíu prósent færðust annað hvort upp eða niður í lánshæfismati.
Sextíu prósent Íslendinga stóðu í stað, en fjörutíu prósent færðust annað hvort upp eða niður í lánshæfismati. Vísir/Vilhelm

Fjörutíu prósent þjóðarinnar færðist um áhættuflokk um lánshæfismat við uppfærslu á matinu hjá Creditinfo sem átti sér stað síðasta fimmtudag. Við uppfærsluna er nú litið til eldri upplýsinga um vanskil einstaklinga, en áður.

Síðustu daga hafa fréttastofu borist ábendingar frá fólki sem furðar sig á uppfærslunni, vegna þess að það hefur færst niður um áhættuflokk. Lánshæfisflokkarnir eru fimmtán talsins og skiptast yfirflokkar eftir bókstöfum frá A til E og undirflokkarnir frá 1 í 3. 

Færist einstaklingur úr A eða B flokki, þar sem hann þykir líklegur til að vera skilvís greiðandi, niður í C, D eða E flokk þá þykir hann líklegri til að lenda í vanskilum.

Í svörum Creditinfo við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að vegna aukinnar áherslu á vanskilasögu við uppfærsluna hafi orðið til þess að innan við eitt prósent þjóðarinnar hafi færst úr A eða B flokki niður í C eða neðar.

Fleiri upp en niður

Jafnframt kemur fram að við uppfærsluna hafi lánshæfismat 25 prósent þjóðarinnar batnað, en versnað hjá fimmtán prósentum. Sextíu prósent stóðu í stað. Flestar breytingar hafi þó litlar, hnikun um einn til tvo flokka.

Samkvæmt Creditinfo er besti sögulegi mælikvarðinn á það hvort einstaklingar standi við skuldbindingar sínar í framtíð er hvort þeir hafi alltaf gert það áður.

„Áhrif fyrri vanskila á lánshæfismat eru þó þannig að þau eru mest þegar þau eru nýleg en dvína svo með tímanum,“ segir í svörum fyrirtækisins.

Einnig er bent á að breytingarnar á lánshæfismatinu séu gerðar í samræmi við nýja reglugerð um vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust. 

Með tilkomu reglugerðarinnar er það lagt í hendur fjárhagsupplýsingastofu að meta hvaða upplýsingar, og þá sérstaklega upplýsingar um fyrri vanskil, hafa afgerandi þýðingu við mat á líkum þess að einstaklingar standi við skuldbindingar sínar.

Nota einungis sögulegar upplýsingar sem hafa afgerandi áhrif

Creditinfo heldur því fram að það leggi mikla áherslu á að nota eingöngu sögulegar upplýsingar sem hafa afgerandi áhrif á mat á því hvort staðið verði við skuldbindingar í framtíð. 

„Þessi breyting hefur því áhrif til hækkunar eða lækkunar á lánshæfismati eftir því hver vanskilasaga viðkomandi er. Það þýðir að lánshæfismat þeirra sem hafa alltaf staðið í skilum, yfir 93% þjóðarinnar, er líklegt til að batna á meðan lánshæfismat sumra þeirra sem hafa ekki alltaf staðið í skilum versnar.“

Áhrifin voru mest á þann hóp sem á söguleg vanskil, en til þess að falla í þann flokk þarf viðkomandi að hafa verið á vanskilaskrá á síðustu þremur árum. 

Creditinfo bendir á að vanskilnatíðni fólks sem er í flokknum C2 sé um tíu prósent, sem þýði að níutíu prósent einstaklinga muni ekki fara á vanskilaskrá á næstu tólf mánuðum.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×