Viðskipti innlent

Skerða orku til fisk­verkunar og gagnavera

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Landsvirkjun segir þurrt tiðarfar hafa haft áhrif.
Landsvirkjun segir þurrt tiðarfar hafa haft áhrif. Vísir/Vilhelm

Landsvirkjun hefur tekið ákvörðun um að skerða orku til fiskimjölsverksmiðja, fiskþurrkana og gagnavera sem stunda rafmyntagröft. Þetta kemur fram í tilkynningu, þar segir að afhending á víkjandi orku verði stöðvuð frá og með 1. desember og verði í gildi þar til miðlunarstaða hafi batnað.

Þar segir að ástæða aðgerðanna, sem séu ótímabundnar, sé samspil erfiðs batnsbúskapar, hárrar nýtingar stórnotenda á langtímasamningum og aukinnar eftirspurnar heimila og smærri fyrirtækja, sem Landsvirkjun kappkostar að tryggja orku.

Í tilkynningu sinni segir Landsvirkjun að eftirspurn eftir raforku á Íslandi hafi verið mikil á undanförnum misserum. Þar hafi farið saman sterk eftirspurn stórnotenda á sama tíma og eftirspurn heimila og smærri fyrirtækja hafi aukist.

„Þegar eftirspurn er mikil er raforkukerfið viðkvæmara fyrir stöðunni í vatnsbúskapnum og líklegra að grípa þurfi til skerðinga, eins og fyrri dæmi sanna. Viðskiptavinir á borð við fiskimjölsframleiðendur og gagnaver í rafmyntagreftri sem ekki hafa gert samninga um kaup á forgangsorku verða fyrir áhrifum þegar vatnafar gefur eftir og afhending til þeirra takmörkuð í samræmi við ákvæði samninga.“

Ein haustlægð ekki nóg

Landsvirkjun segir að tíðarfar á Þjórsársvæði hafi verið mjög þurrt frá byrjun júlímánaðar sem olli því að Þórisvatn fylltist ekki í haust og að niðurdráttur hafi hafist snemma á svæðinu eða upp úr miðjum september.

„Önnur miðlunarlón Landsvirkjunar fylltust í sumar og Blöndulón og Hálslón fóru af yfirfalli í lok september. Fylling miðlunarforða í upphafi vatnsárs, sem byrjar 1. október, var 93%. Það samsvarar því að um 350 GWh hafi vantað í forðann í upphafi vetrar.“

Fyrir utan eina haustlægð um miðjan október hafi þessir þurkar haldið áfram á hálendinu. Niðurdráttur miðlunarlóna hafi verið mjög eindreginn og þróuin á Þjórsársvæði sambærileg þróuninni haustið 2021, sem þá reyndist viðvarandi.

Líklega fram á vor

Landsvirkjun segir að ljóst sé að takmarka þurfi afhendingu á víkjandi orku svo tryggja megi öryggi afhendingu í vetur til þeirra viðskiptavina sem samið hafi um slíkt.

Afhending á víkjandi orku verður stöðvuð frá og með næsta föstudegi, 1. desember. Sú stöðvun verður í gildi þar til miðlunarstaða hefur batnað.

„Reynslan sýnir að óverulegar breytingar verða á innrennsli yfir kaldasta tíma ársins, svo búast má við að skerðingin standi fram á vormánuði. Á meðan hún er í gildi býður Landsvirkjun ekki upp á gerð neinna nýrra samninga um afhendingu forgangsorku til stórnotenda á árinu 2024.“

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×