Viðskipti innlent

Marel rauk upp áður en lokað var fyrir við­skipti

Árni Sæberg skrifar
Árni Sigurðsson er starfandi forstjóri Marel.
Árni Sigurðsson er starfandi forstjóri Marel. Marel

Lokað var fyrir viðskipti með hlutabréf í Marel í morgun. Gengi bréfanna rauk upp um tæplega þrjátíu prósent í fyrstu viðskiptum eftir að tilkynnt var um óskuldbindandi viljayfirlýsingu um kaup á öllu hlutafé félagins. Opnað hefur verið fyrir viðskiptin á ný.

Í tilkynningu Marels til Kauphallar í morgun sagði að félaginu hefði borist óskuldbindandi viljayfirlýsing varðandi mögulegt tilboð í öll hlutabréf í félaginu.

„Í viljayfirlýsingunni kemur skýrt fram að ekki sé um að ræða lagalega bindandi skuldbindingu og að verði valkvætt yfirtökutilboð lagt fram á síðari stigum, yrði slíkt tilboð háð margvíslegum skilyrðum. Viljayfirlýsingunni fylgdi óafturkallanleg yfirlýsing Eyris Invest hf., eiganda 24,7% hlutafjár í Marel, um samþykki Eyris Invest hf. verði tilboð lagt fram í tengslum við viljayfirlýsinguna,“ sagði í tilkynningunni.

Fjárfestar biðu ekki boðanna í morgun og á fyrstu mínútunum eftir opnun markaðar var gengi bréfa í félaginu komið upp um þrjátíu prósent. Þegar þessi frétt var skrifuð hafði gengið farið upp um 28,57 prósent en á vef Kauphallarinnar sagði einfaldlega „suspended or halted“ eða „frestað eða stöðvað“ á síðu Marels í morgun. 

Heimild til að stöðva viðskipti vegna mikilla sveifla

Í lögum um markaði fyrir fjármálagerninga segir að rekstraraðila markaðar, sem starfrækir markaðstorg fjármálagerninga eða skipulegt markaðstorg, sé heimilt að stöðva tímabundið viðskipti með fjármálagerning eða taka hann úr viðskiptum, uppfylli hann ekki lengur reglur markaðstorgsins.

Þá segir einnig í lögunum að skipulegur markaður skuli vera fær um að stöðva tímabundið eða takmarka viðskipti þegar verðsveiflur verða á fjármálagerningi, á stuttu tímabili, á þeim markaði eða tengdum markaði og geta í undantekningartilvikum fellt niður, breytt eða leiðrétt viðskipti.

Telja verður að stöðvun viðskipta með bréf í Marel sé til komin af síðarnefndri heimild laganna. Ekki hefur náðst í Magnús Harðarson, forstjóra Kauphallarinnar, við vinnslu fréttarinnar.

Hollendingurinn lokar líka

Bréf í Marel eru einnig til kaupa og sölu í kauphöllinni í Amsterdam í Hollandi. Þar hefur gengi bréfanna hækkað um 29,2 prósent í dag. Þar hafði engin ákvörðun verið tekin um stöðvun viðskipta með bréfin þegar þessi frétt var skrifuð en eftir að tilkynning barst um hver stæði að baki tilboðinu var lokað fyrir viðskipti.

Síðan þá hefur aftur verið opnað fyrir viðskipti með bréf í Marel bæði hér heima og í Hollandi.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×