Körfubolti

Tryggvi Snær og fé­lagar hentu frá sér unnum leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tryggvi Snær kann vel við sig í Bilbao.
Tryggvi Snær kann vel við sig í Bilbao. Bilbao

Tryggvi Snær Hlinason átti fínan leik undir körfunni þegar Bilbao tókst á einhvern undraverðan hátt að tapa fyrir Joventut á útivelli í ACB-deildinni í körfubolta á Spáni.

Eftir jafnan fyrsta leikhluta tóku gestirnir frá Bilbao öll völd á vellinum. Gestirnir leiddu með sjö stigum fyrir síðasta fjórðung leiksins og voru enn sjö stigum yfir þegar mínúta var til leiksloka.

Á einhvern ótrúlegan hátt tókst gestunum að glutra niður forystunni og þegar lokaflautið gall voru heimamenn í Joventut þremur stigum yfir, lokatölur 81-78. Bilbao er í 14. sæti deildarinnar með fjóra sigra í fyrstu 10 leikjum tímabilsins.

Tryggvi Snær átti eins og áður sagði fínan leik, hann skoraði 9 stig, tók 10 fráköst og gaf eina stoðsendingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×