Um­fjöllun og við­töl: Kefla­vík - Álfta­nes 97-78 | Kefla­vík valtaði yfir Álfta­nes

Andri Már Eggertsson skrifar
Dúi Þór Jónsson Álftanes - Tindastóll. Subway deild karla sumar 2023 handbolti KKÍ.
Dúi Þór Jónsson Álftanes - Tindastóll. Subway deild karla sumar 2023 handbolti KKÍ. Vísir/Hulda Margrét

Keflavík vann Álftanes afar sannfærandi 97-78 og komst aftur á sigurbraut. Keflavík átti gott áhlaup í öðrum leikhluta og heimamenn litu aldrei um öxl eftir það. Keflavík vann á endanum nítján stiga sigur. 

Leikurinn fór rólega af stað. Bæði lið byrjuðu á að hitta illa og tapa boltanum. Fyrsta karfan kom eftir tvær mínútur og þá fór boltinn að rúlla.

Í stöðunni 6-6 náði Keflavík upp sínum leik og heimamenn gerðu sex stig á tæplega mínútu og þá neyddist Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftnesinga, að taka leikhlé. Fram að þessu hafði leikurinn verið hægur og spilaður á hálfum velli líkt og Álftanes vildi.

Gestirnir svöruðu með sjö stigum í röð og komust yfir. Það var síðan Igor Maric sem gerði síðustu þrjú stigin í fyrsta leikhluta og heimamenn voru yfir 20-17 eftir fyrsta fjórðung.

Keflavíkurhraðlestin komst á teinana í öðrum leikhluta og heimamenn fóru að hitta vel. Keflavík gerði fimmtán stig á meðan gestirnir gerðu fjögur stig.

Heimamenn komust mest sautján stigum yfir í fyrri hálfleik en þegar haldið var til hálfleiks var Keflavík fjórtán stigum yfir 47-33. 

Heimamenn byrjuðu síðari hálfleik af miklum krafti og gerðu tíu stig gegn aðeins tveimur hjá Álftanesi sem varð til þess að Kjartan Atli tók leikhlé.

Eftir leikhlé Kjartans bitu Álftnesingar frá sér og voru staðráðnir í að gefast ekki upp. Eftir áhlaup Keflavíkur spilaði Álftanes sínar bestu mínútur í leiknum. Gestirnir enduðu hins vegar þriðja leikhluta afar illa þar sem Sigurður stal boltanum af Cedrick Bowen sem var að gefa á Dúa í innkasti og Sigurður rétt náði að koma boltanum ofan í áður en leiktíminn rann út.

Í fjórða leikhluta var aðeins spurning hversu stór sigur Keflvíkinga yrði. Gestirnir gerðu síðustu tvær körfurnar í leiknum og niðurstaðan var nítján stiga sigur Keflavíkur 97-78.

Af hverju vann Keflavík?

Keflavík var betri á nánast öllum sviðum leiksins. Heimamenn voru með betri skotnýtingu, tóku fleiri fráköst, gáfu fleiri stoðsendingar og fengu fleiri stig af bekknum.

Keflavík datt í gang í öðrum leikhluta þar sem heimamenn náðu að búa til forskot og litu aldrei um öxl eftir það.

Hverjir stóðu upp úr?

Remy Martin var tæpur vegna meiðsla fyrir leikinn en það var ekki að sjá þar sem hann spilaði af fullum krafti. Remy Martin var stigahæstur með 22 stig.

Marek Dolezaj var með tvöfalda tvennu en hann gerði 13 stig og tók 11 fráköst.

Hvað gekk illa?

Álftanes byrjaði þrjá af fjórum leikhlutum afar illa og eðlilega reyndist það gestunum afar erfitt að byrja þrjá af fjórum leikhlutum með því að fá á sig áhlaup. 

Álftanes saknar Harðar Axels Vilhjálmssonar afar mikið sem hefur ekki spilað síðustu þrjá leiki vegna meiðsla. Álftanes hefur aðeins unnið Hamar í síðustu þremur leikjum. 

Hvað gerist næst?

Næsta fimmtudag mætast Álftanes og Valur klukkan 19:15.

Grindavík og Keflavík eigast síðan við næsta föstudag klukkan 19:15.

„Þetta var okkar versti leikur í vetur“

Kjartan Atli var svekktur eftir leikVísir / Anton Brink

Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness, var svekktur eftir tap kvöldsins.

„Mér fannst þeir grimmari en við, vorum staðir og gerðum fullt af mistökum,“ sagði Kjartan Atli eftir leik.

Álftanes byrjaði síðustu þrjá leikhluta afar illa og Kjartan var ekki með svar við því hvers vegna liðið spilaði svona illa.

„Við þurfum að kafa ofan í það og ég er ekkert endilega með svar við því akkúrat núna. Þeir komu grimmari út í allt sem þeir voru að gera og spiluðu mjög vel. Hrós á Keflavík fyrir sinn leik en við spiluðum líka mjög illa og þetta var okkar versti leikur í vetur.“

Kjartani fannst Keflavík spila afar vel á opnum velli og heimamenn gerðu vel í að nýta sér það þegar Álftanes klikkaði á skoti.

„Keflavík er lið sem fær rosa mikið úr sókn andstæðingana. Ef andstæðingurinn er að klikka sóknarlega þá eru Keflvíkingar góðir á opnum velli. Þeir náðu að stjórna hraðanum og gátu leikið sér að draga úr hraðanum og bæta í hraðann á meðan við vorum að reyna að stíga á bensíngjöfina.“

Álftanes hefur tapað tveimur af síðustu þremur leikjum eftir að Hörður Axel Vilhjálmsson meiddist. Kjartan taldi þó liðið eiga að spila betur þrátt fyrir að það vanti Hörð.

„Hann er landsliðsfyrirliði Íslands og auðvitað myndu öll lið sakna hans. Við teljum okkur samt vera með bakverði sem ráða við þetta verkefni.“

„Í tapinu gegn Þór vorum við sex stigum yfir þegar að 3-4 mínútur voru eftir og auðvitað hefði hann hjálpað okkur undir lokin, við vorum betri en Hamar á mjög á löngum köflum en þeir komu sterkir inn í fjórða leikhluta og í kvöld fór takturinn til þeirra og Hörður er frábær í að stýra taktinum en það lenda öll lið í meiðslum og við jöfnum okkur á þessu,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira