Körfubolti

Grind­víkingar æfðu í fyrsta sinn eftir rýminguna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Grindavíkurstelpur fyrir æfingu gærdagsins í Seljaskóla.
Grindavíkurstelpur fyrir æfingu gærdagsins í Seljaskóla. grindavík

Körfuboltalið Grindavíkur eru byrjuð að æfa eftir að bærinn var rýmdur á föstudag vegna jarðhræringa á svæðinu.

Á Facebook-síðu körfuknattleiksdeildar Grindavíkur var greint frá því að karla- og kvennalið Grindavíkur hefðu tekið sína fyrstu æfingu eftir rýminguna í Seljaskóla þeirra ÍR-inga.

Bæði Grindavíkurliðin eiga leiki á laugardaginn og fara þeir fram í Smáranum í Kópavogi. Kvennalið Grindavíkur mætir Þór Akureyri klukkan 14:00 og karlalið Grindavíkur etur kappi við Hamar klukkan 17:00. Báðir leikirnir verða sýndir í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport.

Í viðtali við Val Pál Eiríksson í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær sagði formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur, Ingibergur Þ. Jónasson, að mikil óvissa ríkti um starf deildarinnar. Nýtt íþróttahús Grindvíkinga situr beint ofan á sprungunni sem hefur myndast í gegnum bæinn og hefur orðið illa úti vegna sigs.

„Ég fór ekki inn í það en það er metra sig út frá Túngötunni, framhjá kirkjunni og undir norðvesturhornið á íþróttahúsinu og svo inn á fótboltavöllinn og uppeftir hjá húsinu mínu. Það getur ekki verið að það sé allt í lagi þarna inni. Ég trúi því ekki,“ sagði Ingibergur.

Fylgjast má með stöðunni í Grindavík í vaktinni á Vísi hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×