Handbolti

Ó­trú­legur viðsnúningur Eyja­manna sem unnu stór­sigur

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sigtryggur Daði skoraði fimm mörk í dag.
Sigtryggur Daði skoraði fimm mörk í dag. Vísir/Hulda Margrét

ÍBV vann átta marka sigur á Selfyssingum í Suðurlandsslag í Olís-deild karla í dag. Selfyssingar leiddu lengi vel en magnaður endasprettur Eyjamanna tryggði þeim stigin tvö.

Fyrir leikinn í Eyjum í dag var ÍBV í 6. sæti með níu stig en Selfyssingar neðstir með aðeins tvö stig eftir átta leiki.

Lengi vel var þó ekki að sjá að Selfyssingar væru neðstir í deildinni. Þeir voru betri aðilinn framan af og leiddu 9-4 um miðbik síðari hálfleiks en forystan var þó aðeins tvö mörk í hálfleik. Staðan þá 13-11.

Selfyssingar náðu fimm marka forystu á ný í síðari hálfleiknum og þegar átján mínútur voru eftir af leiknum var staðan 20-18 gestunum í vil.

Þá fór hins vegar allt í baklás hjá Selfyssingum. ÍBV skoraði fimm mörk í röð og komst í 23-20. Þeir héldu áfram að hamra járnið á meðan það var heitt og unnu þessar síðustu átján mínútur með tíu mörkum.

Lokatölur 33-25 og munurinn í raun ótrúlegur miðað við hvernig leikurinn hafði þróast lengst af.

Andrés Marel Sigurðsson var markahæstur hjá ÍBV með sex mörk úr sex skotum en Sigtryggur Daði Rúnarsson skoraði fimm mörk. Einar Sverrisson skoraði sex mörk fyrir Selfoss á sínum gamla heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×