Skoðun

Stækt Gyðinga­hatur í nafni mann­réttinda

Finnur Th. Eiríksson skrifar

Um daginn fór ég í viðtal hjá ríkismiðlinum. Þar sagði ég meðal annars að „fjölmargir eigi erfitt með að aðgreina ísraelsk stjórnvöld frá Gyðingum“. Ég reyndist sannarlega forspár. Í gær var mér bent á nýlegan pistil Sigurðar Skúlasonar, leikara. Þar segir hann:

„Gyðingar sem áttu alla okkar samúð og samkennd í Helförinni hafa nú tekið að sér hlutverk böðulsins.“

Það skiptir engu máli hvort samúð manns liggur hjá Palestínumönnum eða Ísraelum í þessu máli. Þetta er Gyðingahatur. Það að nota sársaukafyllsta viðburð í sögu Gyðinga til að núa þeim honum um nasir er Gyðingahatur. Það að alhæfa á neikvæðan hátt um Gyðinga sem heild er Gyðingahatur.

Sigurður Skúlason er maður sem notar samkennd með Palestínumönnum sem skjól fyrir hatri sínu. En er Sigurður Skúlason einn um þessa afstöðu? Greinilega ekki, því um fimm þúsund manns hafa líkað við færslu hans.

Ég tók ekki nógu sterkt til orða þegar ég sagði að fjölmargir ættu erfitt með að greina ísraelsk stjórnvöld frá Gyðingum. Fjölmargir eru hreinlega ófærir um það.

Samþykki fimm þúsund Íslendinga við slíkum viðbjóði hefur því miður ekki átt sér stað í tómarúmi. Íslenskir fjölmiðlar geta ekki skorast undan ábyrgð í þessu máli. Frá upphafi stríðsins þann 7. október hafa þeir gert fátt annað gert en að lepja upp blygðunarlausan áróður Hamassamtakanna.

Til dæmis hafa íslenskir fjölmiðlar flutt fréttir af því að Ísrael hafi skotið flugskeyti á spítala, en óyggjandi sönnunargögn eru fyrir því að hryðjuverkasamtök á Gazasvæðinu hafi skotið flugskeytinu. Yfir fimm hundruð gölluð flugskeyti hryðjuverkasamtaka hafa lent á Gazasvæðinu undanfarnar vikur og gætu hæglega hafa borið ábyrgð á meirihluta þeirra dauðsfalla sem hafa orðið í stríðinu.

Kjarni málsins er sá að íslenskir fjölmiðlar hafa í raun ekki hundsvit á því sem er að gerast í þessum heimshluta. Þessum pistli fylgir því ákall til þeirra um að hætta að fjalla um þetta mál á þennan hlutdræga og æsifréttalega hátt. Það má færa rök fyrir því að þeir hafi hreinlega framleitt Gyðingahatur með umfjöllun sinni.

Að lokum langar mig að undirstrika að Gyðingar hafa innbyrðis ólíkar skoðanir á þessu stríði, líkt og öllu öðru. Það er því algjörlega óboðlegt að minnihlutahópur á Íslandi sé djöfulgerður á þennan hátt á opinberum vettvangi.

Höfundur er meðlimur Menningarfélags Gyðinga og stjórnarmeðlimur MIFF (Með Ísrael fyrir friði) á Íslandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×