Körfubolti

Kane komið vel inn í hlutina í Grinda­vík: „Þurfum að gera þetta með honum“

Aron Guðmundsson skrifar
Ólafur Ólafsson, fyrirliði Grindavíkur er virkilega ánægður með það hvernig stjörnuleikmaðurinn DeAndre Kane hefur komið inn í lið Grindavíkur
Ólafur Ólafsson, fyrirliði Grindavíkur er virkilega ánægður með það hvernig stjörnuleikmaðurinn DeAndre Kane hefur komið inn í lið Grindavíkur Vísir/Samsett mynd

Grinda­vík tekur á móti ríkjandi Ís­lands­meisturum Tinda­stóls í kvöld. Grind­víkingar eru á heima­velli en koma inn í leik kvöldsins án sigurs í fyrstu tveimur um­ferðunum. And­stæðingur kvöldsins gæti ekki verið stærri. Ís­lands­meistararnir frá Sauð­ár­króki hafa unnið báða leiki sína til þessa í deildinni en Ólafur Ólafs­son, fyrir­liði Grind­víkinga er spenntur fyrir á­skorun kvöldsins og fer fögrum orðum um nýjustu við­bót liðsins.

„Ég er bara spenntur fyrir þessu. Ís­lands­meistararnir að mæta í heim­sókn. Þeir eru tap­lausir til þessa á meðan að við höfum tapað báðum leikjunum okkar. Við ætlum okkur ekkert að gefa eitt­hvað eftir í þessu. Við munum mæta klárir til leiks og gefa þeim al­vöru leik,“ segir Ólafur í samtali við Vísi.

Þú og þínir sam­herjar væntan­lega ekki sáttir með að vera búnir að tapa báðum leikjum ykkar til þessa. Hvernig horfir þessi leikur við þér?

„Við erum, þrátt fyrir allt, bara fullir bjart­sýni. Fyrsti leikurinn okkar á tíma­bilinu, gegn Hetti, var arfaslakur af okkar hálfu. Þar komumst við þó á á­kveðið skrið í síðari hálf­leik og svo á móti Álfta­nesi vorum við aftur slakir í fyrri hálf­leik og grófum okkur holu sem við reyndum síðan að koma okkur upp úr. Við vorum ansi ná­lægt því að gera það en það hafðist ekki.“

Til­finningin hjá Grind­víkingum sé sú þannig að þrátt fyrir þessi tvö töp sé leikur liðsins á réttri leið.

„Þá horfi ég sér­stak­lega til beggja seinni hálf­leikjanna í þessum tveimur leikjum. Þetta hefur verið á réttri leið hjá okkur. Stemningin í leik­manna­hópnum er flott. Það er ekkert panikk á okkur enda bara tveir leikir búnir af tíma­bilinu. Við höldum bara á­fram að reyna verða betri frá degi til dags. Koma nýja manninum betur inn í okkar leik og erum fullir sjálfs­trausts fyrir leikinn í kvöld.“

„Hann er kominn hingað til að gera okkur betri sem lið“

Ólafur snertir á „nýja manninum“ í liði Grinda­víkur. Þar er um að ræða DeAndre Kane sem mikið hefur verið fjallað um upp á síð­kastið enda ekki á hverjum degi sem er­lendur leik­maður með sam­bæri­lega feril­skrá og hann endar í efstu deild hér á landi.

„Ég sagði það við strákana í gær að við þyrftum að passa okkur á því að vera ekki ein­hverjir á­horf­endur þótt að við séum komnir með leik­mann í okkar lið sem er alveg rosa­lega góður í körfu­bolta. Hann er ekki kominn hingað til að vera með ein­hverja sýningu fyrir okkur. Hann er kominn hingað til að gera okkur betri sem lið.

„Ég hef séð það bara á æfingum undan­farið að Kane gefur sér tíma til að leið­beina yngri leik­mönnum sem og okkar reyndari leik­mönnum. Þetta er náttúru­lega leik­maður sem hefur spilað á hæsta gæða­stigi í sterkum deildum, hann kann þennan leik út í gegn og hjálpar okkur helling.

Við förum með hellings sjálfs­traust inn í okkar leiki vitandi af því að við erum með svona góðan leik­mann innan okkar raða. Miðað við það hvernig hann hefur hagað sér frá því að hann kom til okkar. Hvernig hann fellur inn í hópinn. Er bara geggjað að sjá. Ég, og við allir, erum bara spenntir fyrir fram­haldinu. Við þurfum að gera þetta með honum, ekki bara bíða eftir því að hann geri allt fyrir okkur. Ef við gerum það þá eiga góðir hlutir eftir að gerast.“

Það hefur náttúru­lega verið mikil at­hygli í kringum komu Kane hingað til lands. Er það að koma þér á ó­vart hvernig hann hefur komið inn í hlutina hjá ykkur?

„Maður heyrði fyrst af því í fyrra að hann gæti verið á leið til okkar og þá gerðist það ekki. Allt þetta ferli í kringum mögu­lega komu hans hefur verið á­kveðin rússí­bana­reið. Ég sagði alltaf sjálfur að ég myndi ekki trúa því að hann væri á leið til okkar fyrr en ég myndi taka í höndina á honum hér í Grinda­vík.

Það er búið að gerast og auð­vitað voru ein­hverjar efa­semda­raddir á lofti um það hvernig hann myndi falla inn í þetta hjá okkur. Hvort hann væri mögu­lega of stórt nafn fyrir fé­lag eins og Grinda­vík en hann er ekkert nema eðal­ná­ungi.“

DeAndre Kane spilaði sinn fyrsta leik fyrir Grindavík á dögunumVísir / Anton Brink

„Hann fer út að borða með ungu leik­mönnum okkar, gefur mikið af sér og er alltaf að hringja í leik­menn og biðja þá um að gera eitt­hvað með sér. Hann er mikil fé­lags­vera, geggjaður í hóp og vill bara vinna. Það er bara þannig og við erum í þessu til að vinna og vonandi náum við að koma fyrsta sigrinum í hús í kvöld.“

Spenntur fyrir slagnum við „stóra manninn“

Talandi um að reyna koma fyrsta sigrinum í hús í kvöld. Hvar mun rauði þráðurinn í þeim leik liggja hjá ykkur? Hvað þurfið þið að ein­blína á til þess að ná þessum fyrsta sigri?

„Varnar­lega þurfum við að vera mjög sam­stilltir, gera allt saman. Þurfum að beita réttu færslunum í vörninni. Við erum minni og þurfum því allir að stíga út, allir að hjálpast að í vörninni og ná boltanum eftir að þeir taka skot. Það er ekki nóg að halda bara að ég taki öll frá­köstin eða þá að Kane taki þau og taki á rás. Við þurfum allir að hjálpast að.

Tinda­stóll er með hæð á okkur, sér­stak­lega í center stöðunni. Það verður bara stemning í því að fá að slást við stóra strákinn þeirra undir körfunni. Ég er bara spenntur fyrir því.“

Leikur Grindavíkur og Tindastóls hefst klukkan 19:15 í kvöld og verður hann sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×