Makamál

„Mér leið eins og ég gæti sigrað heiminn“

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Alexandra Helga eignaðist dóttur sina, Melrós Míu, í Bretlandi í miðjum heimsfaraldri. Hún þurfti að mæta ein í allar læknisheimsóknir og býr vel að því að bæði systir hennar og besta vinkona eru ljósmæður sem voru henni innan handar.
Alexandra Helga eignaðist dóttur sina, Melrós Míu, í Bretlandi í miðjum heimsfaraldri. Hún þurfti að mæta ein í allar læknisheimsóknir og býr vel að því að bæði systir hennar og besta vinkona eru ljósmæður sem voru henni innan handar. Saga Sig.

Athafnakonan Alexandra Helga Ívarsdóttir trúði ekki eigin augum þegar hún fékk jákvætt þungunarpróf eftir hún og eiginmaður hennar, Gylfi Þór Sigurðsson knattspyrnumaður, höfðu reynt að eignast barn í sex ár. Loksins kom lítil stúlka.

„Þegar það gerðist svo óvænt í undirbúningi fyrir enn aðra meðferðina þorði ég ekki að trúa því fyrr en ég fékk niðurstöðu úr blóðprufu og hafði eytt kvöldinu sem ég tók prófið í að googla hvað gæti mögulega orsakað falskt óléttupróf,“ segir Alexandra. Saman eiga hjónin dótturina Melrós Míu, tveggja ára. 

Alexandra er í þann mund að leggja lokahönd á barnavöruverslunina Móa&Mía, hugarfóstur hennar. Hugmyndin um að opna verslun kom til hennar þegar fjölskyldan var búsett í Englandi.

„Ég kynntist mikið af vörum í Bretlandi þegar ég bjó þar sem varð kveikjan að búðinni minni. Mig langaði svo að geta boðið foreldrum upp á þær frábæru vörur sem mér fannst sjálfri ómissandi á meðgöngu og fyrir barnið,“ segir Alexandra sem stefnir á að opna verslunin um mánaðamótin.

Saga Sig.

Alexandra Helga er viðmælandi vikunnar í liðnum Móðurmál og áskoranir hennar á óléttunni og í móðurhlutverkinu.

Hvernig leið þér fyrstu vikurnar?

Mér leið hræðilega illa fyrstu vikurnar og var nánast rúmliggjandi vegna mikillar ógleði.

Hvernig tókst þér að takast á við líkamlegar breytingar?

Ég elskaði að sjá kúluna stækka og fá loksins að upplifa þetta kraftaverk sem ég hafði beðið svo lengi eftir. Ógleðin var það sem setti stærstann strik í reikninginn hjá mér líkamlega.

Hvernig fannst þér heilbrigðisþjónustan halda utan um verðandi móður?

Ég átti dóttur mína í Bretlandi og fékk mjög góða þjónustu þar. Ég var ófrísk í miðju covid og þurfti því að mæta ein í allar læknisheimsóknir (m.a sónar). Læknisheimsóknirnar voru ansi margar þar sem ég var undir auknu eftirliti á fyrri hluta meðgöngu hjá ófrjósemislæknum.

Svo er ég svo heppin að systir mín og besta vinkona er ljósmóðir og hún fékk ófá símtölin með allskyns spurningum. Það var ómetanlegt að hafa hana sem stuðning í gegnum þetta allt.

Rann á þig eitthvað mataræði á meðgöngunni?

Mataræðið á meðgöngunni var mjög skrítið og ólíkt mínum matarvenjum. Ógleðin gerði það að verkum að ég hafði litla list og borðaði mest einföld kolvetni og var með sleikjó í öllum vösum til að höndla það að komast út úr húsi oft á tíðum.

Það eina sem ég “craveaði” var íslenskur bakaríssnúður með bleiku glassúri sem fékkst ekki í Bretlandi. Mig dreymdi oft á nóttunni að ég væri að velja mér snúð í bakaríi og vaknaði svo svekkt eftir því.

Pabbi lét svo drauminn rætast og kom um jólin með þrjá bleika snúða út í handfarangri en þá var ég komin rúmar 20 vikur á leið.

Hvað fannst þér erfiðast við meðgönguna?

Ógleðin. Ég var með slæma ógleði alla meðgönguna, allan sólarhringinn sem var virkilega krefjandi.

Hvað fannst þér skemmtilegast við meðgönguna?

Að sjá kúluna stækka og finna hreyfingarnar. Það er svo stórkostlegt að finna fyrir barninu og fá að tengjast því á þennan hátt áður en maður hittir það í fyrsta sinn.

Ég man líka þegar ég fór fyrst í þröngan kjól og gat sýnt bumbuna, mér fannst það svo gaman.

Saga Sig.

Varstu í mömmuklúbb?

Nei því miður var ekki mikið um svoleiðis í Bretlandi á þeim tíma í covid.

Fannst þér það skipta máli að umgangast mæður sem voru á svipuðum stað?

Já, blessunarlega á ég stóran vinkonuhóp sem margar eiga börn á svipuðum aldri og dóttir mín. Það er mjög dýrmætt að geta deilt þessari reynslu með góðum vinkonum.

Fengu þið að vita kynið? Já, við vissum kynið.

Hvernig bjóstu þig undir fæðinguna?

Ég fór á hypnobirthing námskeið hjá æðislegri konu sem kenndi mér margt og hjálpaði mér að gera fæðingarplan og undirbúa mig bæði líkamlega og andlega. Við vorum einnig saman í tímum hjá henni og undirbjuggum okkur saman. 

Mér fannst mikilvægt að fara inn í fæðinguna með mínar óskir á blaði svo ljósmæðurnar sem tóku á móti mér vissu hvernig mig langaði að upplifa fæðinguna. Þær sýndu því mikla virðingu og voru æðislegar í alla staði. Það var alltaf spenningur sem réði för og mér fannst allt varðandi fæðinguna ótrúlega spennandi og gat ekki beðið eftir að fá að upplifa það sjálf.

Hvernig gekk fæðingin?

Ég átti dóttur mína í svokölluðu „birth center” sem er fæðingastofa fyrir konur sem kjósa náttúrulega fæðingu. Mér fannst upplifunin mjög valdeflandi og fæðingin gekk ótrúlega vel og hratt fyrir fyrsta barn. Mér þykir alltaf gaman að segja frá henni þar sem konur virðast oft heyra mikið af hryllingssögum fyrir fyrstu fæðingu. 

Ég var ótrúlega lánsöm að fá að upplifa fæðinguna nokkurn veginn eins og ég hafði séð fyrir mér í rólegu og góðu umhverfi.

Hvernig tilfinning var að fá barnið í fangið?

Það er í raun ógerlegt að lýsa þessari tilfinningu. Ég man að mér leið eins og ég gæti sigrað heiminn og eins og ég hefði alltaf þekkt þessa litlu manneskju sem ég var að hitta í fyrsta skipti.

Fréttablaðið

Hver var algengasta spurningin sem þú fékkst á meðgöngunni?

Ætli það sé ekki „er þér enn þá óglatt?”

Íris Dögg Einarsdóttir

Hvernig leið þér á sængurlegunni þegar heim var komið?

Mér leið vel en vissulega eru fyrstu dagarnir eftir fæðingu krefjandi þegar maður er að venjast svefnleysi og líkaminn er að gróa eftir átökin. Ég var líka fegin að vinkonur mínar höfðu rætt mikið dagana sem sængurkvennagráturinn bankar upp á og það var gott að vera meðvitaður um að það væri allt saman eðilegur hluti af ferlinu þegar hormónar líkamans eru út um allt.

Ég var mjög glöð að fá að hafa mömmu mína úti hjá okkur fyrst eftir fæðingu þar sem Gylfi fékk ekkert frí frá fótboltanum. 

Mamma og Gylfi skiptust á að stjana við okkur mæðgur.

Finnst þér mikil pressa í samfélaginu að eiga allt til alls fyrir barnið?

Ég held að það sé ekkert einsdæmi út frá þessu hlutverki frekar en öðru. Hver og einn verður að velja og finna hvað þeim finnst mikilvægt að eiga og að sama skapi hvað hentar þeirra barni. 


Tengdar fréttir

„Mér leið eins og ofur­­­hetju“

Vinirnir og tónlistarmennirnir Þórdís Imsland og Sigurjón Örn Böðvarsson eignuðust tvö börn með tæplega tveggja ára millibili. Óðinn Örn tveggja ára og Stellu Katrínu sem fæddist fyrr í sumar. 

Þetta er það erfiðasta sem ég hef gert á ævinni

Leik­kon­an Hild­ur Vala Bald­urs­dótt­ir varð ófrísk með níu mánaða millibili. Hún segir magnað að hafa fylgst með aðlögunarhæfni líkamans en viðurkennir að meðgöngurnar hafi tekið verulega á og sitt stærsta verkefni hafi verið að ná að nærast.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×