Tónlist

Frum­­sýning á tón­listar­­mynd­bandi: Kvenna­kraftur í Kali­forníu

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Herdís Stefánsdóttir, jafnan þekkt sem Kónguló, og Salka Valsdóttir, neonme, voru að gefa út lagið The Water in Me.
Herdís Stefánsdóttir, jafnan þekkt sem Kónguló, og Salka Valsdóttir, neonme, voru að gefa út lagið The Water in Me. Skjáskot úr myndbandi

Tónlistarkonan Herdís Stefánsdóttir, jafnan þekkt sem Kónguló, var að senda frá sér sitt annað lag sem heitir The Water In Me. Hún var jafnframt að gefa út tónlistarmyndband við lagið sem er frumsýnt hér í pistlinum.

Hér má sjá tónlistarmyndbandið:

Klippa: Kónguló - The Water In Me ft. neonme

Herdís hefur starfað í tónlistinni í mörg ár og komið víða að bæði hérlendis sem og erlendis. Þá hefur hún gert það gott sem tónskáld fyrir kvikmyndir og sjónvarpsseríur á borð við Knock in the Cabin og The Essex Serpent. Hún gaf út sitt fyrsta sóló lag undir nafninu Kónguló í fyrra sem heitir Be Human og er The Water in Me annað lagið sem hún sendir frá sér í þessu verkefni. Lagið er gefið út í gegnum plötufyrirtækið Marvöðu

Aðspurð segir Herdís að The Water in Me hafi verið langan tíma í bígerð.

„Fyrsta hugmyndin að laginu kviknaði út frá píanó loop-u sem heyrist í upphafi lagsins. Eftir alls konar hugmyndavinnu setti ég lagið svo ofan í skúffu í heilt ár þangað til ég enduruppgötvaði það og sýndi vini mínum og samstarfsmanni Baldri Hjörleifssyni. Hann stakk upp á því að ég skrifaði viðlagið og þá fyrst fór þetta að taka á sig mynd.“ 

Hún fékk Sölku Vals, neonme, til liðs með sér við gerð lagsins.

„Við höfum unnið saman áður og eigum svo fallega sálartengingu þegar það kemur að harmoníu og pródúseringu.“

Salka Vals notast við listamannsnafnið neonme og Herdís við Kónguló.Anna Maggý

Salka samdi textann að laginu en stuttu síðar átti líf hennar eftir að breytast.

„Þegar ég samdi textann var móðurhlutverkið mér ofarlega í huga en stuttu síðar komst ég að því að ég var ólétt af syni mínum Leó. Ég var hrædd við hvað móðurhlutverkið þýddi og leið eins og hlutverkið væri næstum and-femínískt í eðli sínu, þar sem ég sá óléttu og fæðingu sem algjöra sjálfsfórn. Ég held ég hafi notað þetta lag til að skrifa út hræðsluna gagnvart þessu hlutverki sem ég vissi mögulega ómeðvitað að yrði partur af lífi mínu fljótlega,“ segir Salka.

Herdís og Salka tóku upp tónlistarmyndbandið í sólríku Kaliforníu klæddar Rococo kjólum.Skjáskot úr myndbandi

Eftir að lagið var tilbúið fóru bæði Herdís og Salka til Los Angeles.

„Við flúðum þennan harða vetur sem skall á Íslendinga í upphafi ársins. Við höfðum skotið tónlistarmyndband yfir veturinn hér heima áður, sem er gríðarlega erfitt útaf veðrinu. Því fannst mér tilvalið að nýta tækifærið í Kaliforníu og taka upp þar. 

Vinkona mín, Jeaneen Lund, skaut myndbandið og leikstýrði því. Ég hringdi í hana og sagði að mig hefði alltaf dreymt um að klæðast kjól í Rococo stíl. Svo hefur mig alltaf langað að prófa tennis en ég hef aðeins verið að spila badminton með vinum mínum.

Upphaflega hugmyndin fyrir myndbandið var því að við værum að leika okkur um í Rococo kjól á tennisvelli. Einföld og órökrétt hugmynd sem síðar þróaðist í eitthvað stærra, alveg eins og lagið.“

Hér má sjá Kónguló á Youtube og hér er hægt að hlusta á hana á streymisveitunni Spotify


Tengdar fréttir

Herdís samdi tónlistina fyrir væntanlega stórmynd í Hollywood

„Þetta er eiginlega svona röð atvika sem að leiða mann á svona stað,“ segir tónskáldið Herdís Stefánsdóttir í viðtali við Bítið í morgun. Herdís sér um tónlistina í kvikmyndinni Knock at the Cabin sem er nýjasta mynd leikstjórans M. Night Shyamalan. Hann er meðal annars þekktur fyrir stórmyndina The Sixth Sense með Bruce Willis í aðalhlutverki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×