Skoðun

Gefum skulda­bréfum gaum

Vignir Þór Sverrisson skrifar

Ég lærði nokkuð snemma að til að sjá hvað er í gangi í hagkerfinu er nærtækt að horfa á skuldabréfamarkaðinn. Skuldabréfum má líkja við hjarta- og æðakerfi sem sér um að dreifa súrefni til atvinnugeira og heimila. Þegar vextir eru hækkaðir er það til að draga úr umsvifum í hagkerfinu og öfugt þegar þeir eru lækkaðir.

Í heimsfaraldrinum lækkuðu vextir hratt þar sem óvissa um efnahagsmál var mikil. Nú fara vextir hækkandi í öllum heimshlutum. En hvað segir skuldabréfamarkaðurinn okkur? Stutta svarið er að verið sé að reyna að hemja verðbólgu og kæla hagkerfin.

Seðlabanki Íslands er ekki í öfundsverðu hlutverki. Hagvöxtur mældist ríflega 7% í fyrra, íbúum fjölgar sífellt hraðar, fasteignaverð fer hækkandi, atvinnuleysi hefur hjaðnað hratt frá því í faraldrinum og kjarasamningar losna hver á fætur öðrum í byrjun næsta árs. Draga hefur þurft úr umsvifum í hagkerfinu og vextir því hækkað, minna súrefni skammtað.

Þegar vextir eru komnir eins hátt og í dag þá er lítill sem enginn hvati fyrir fólk að auka við skuldsetningu. Í staðinn er skynsamlegt að staldra við og spyrja sig hvernig hægt er að nýta sér stöðuna. Í gegnum tíðina hafa skuldabréf ekki verið eins spennandi fjárfestingakostur og hlutabréf. Það mætir víst enginn í veislur að til að ræða um ávöxtunarkröfu skuldabréfa en ófáir hafa viljað ræða einstök hlutabréf.

Hærri vextir hafa ýtt undir áhuga almennings á sparnaði. Sjá má aukningu í innlánum einstaklinga í bönkum landsins, sem er eðlilegt þegar vextir eru jafn háir og raun ber vitni. Aðgengi almennings að skuldabréfamarkaðnum er helst í gegnum verðbréfasjóði, en í raun hefur aldrei verið auðveldara að tryggja sér góða langtímavexti í gegnum þá sjóði.

Í dag eru kjör á skuldabréfamarkaði sem ekki hafa sést í 15 ár. Hægt er að tryggja sér allt að 10% vexti á skuldabréfum og raunvexti allt að 4%. Tólf mánaða verðbólga er enn há en við þurfum að horfa fram á við. Undanfarna þrjá mánuði hafa sést merki um að verðbólga sé tekin að lækka. Þegar vextir eru eins háir og í dag þá er tækifæri til að tryggja sér þetta háa vaxtastig til lengri tíma í gegnum skuldabréfasjóði. Hver veit nema að í komandi haustveislum vilji fleiri ræða um ágæti skuldabréfa.

Höfundur er fjárfestingarstjóri hjá Íslandssjóðum.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×