Viðskipti innlent

Elva Rakel tekur við af Hrund hjá Festu

Atli Ísleifsson skrifar
Elva Rakel Jónsdóttir hefur stýrt stærsta sviði Umhverfisstofnunar, sem snýr að málefnum loftslags og hringrásar, síðustu ár.
Elva Rakel Jónsdóttir hefur stýrt stærsta sviði Umhverfisstofnunar, sem snýr að málefnum loftslags og hringrásar, síðustu ár. Festa

Elva Rakel Jónsdóttir hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra Festu - miðstöð um sjálfbærni. Hún tekur við starfinu af Hrund Gunnsteinsdóttur sem hefur leitt störf Festu síðastliðin fjögur ár.

Í tilkynningu kemur fram að Elva komi til Festu frá Umhverfisstofnun þar sem hún hafi síðustu ár stýrt einu stærsta sviði Umhverfisstofnunar, sem snýr að málefnum loftslags og hringrásar. Þá hafi Elva einnig starfað sem framkvæmdastjóri umhverfismerkisins Svansins síðustu ár og stutt fyrirtæki við að sýna fram á umhverfislegan árangur.

Haft er eftir Elvu Rakel að það sé sannkallaður draumur að fá að leiða starf Festu um þessar mundir því fyrirtæki og samfélagið allt sé svo sannarlega búið að reima á sig hlaupaskóna. „Ég finn það svo vel að við erum tilbúin í sjálbærnivegferðina og margir eru þegar byrjaðir að spretta úr spori. Í þessu maraþoni, sem mun flytja okkur yfir hæðir og lægðir, getur Festa verið brautarvörður og vísað leiðina í mark. Við sjáum glitta í marklínuna og þar bíða okkar ótal tækifæri til verðmætasköpunar fyrir mannvænna samfélag. Að fá að starfa með kröftugum aðildarfélögum Festu á þessum tímapunkti í sögunni er því algjörlega frábært,” segir Elva Rakel.

Um Festu segir að það hafi það hlutverk að efla þekkingu á sjálfbærum rekstri meðal fyrirtækja, stofnana og hverskyns skipulagsheilda. Rúmlega 180 fyrirtæki, háskólar og opinberar stofnanir myndi samfélag Festu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×