Viðskipti innlent

Ná samkomulagi um kaup á Heimstaden

Jón Þór Stefánsson skrifar
Egill Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Heimstaden á Íslandi.
Egill Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Heimstaden á Íslandi. Aðsend

Sparisjóðurinn Stefnir og Fredensborg AS, eigandi Heimstaden ehf., hafa komist að samkomulagi um möguleg kaup sjóðs á vegum Stefnis á öllu hlutafé í Heimstaden á Íslandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu, en þar segir að Heimstaden eigi um 1600 íbúðir hér á landi sem séu allar í langtímaleigu. Kaupin séu meðal annars háð áreiðanleikakönnun og samþykki endanlegra kaupenda, sem verði eingöngu innlendir lífeyrissjóðir. Stefnir er sparisjóður ætlaður almennum fjárfestum.

Kaupendurnir segjast í tilkynningunni hyggjast fylgja þeirri stefnu sem fyrri eigendur hafi markað og halda þeim innviðum sem byggðir hafa verið upp. 

Þá er ekki gert ráð fyrir að kaupin hafi bein áhrif á leigutaka né starfsfólk félagsins.

„Markmið kaupanna er að reka sjálfbært leigufélag sem hafi burði til að styðja við nauðsynlega íbúðauppbyggingu á næstu árum og með því styrkja leigumarkaðinn hér á landi. Sérstakur sjóður eða félag í rekstri Stefnis mun fara með eignarhald félagsins og fjármagna starfsemina með eiginfjárframlagi og lánsfjármögnun. Félaginu yrði skipuð sjálfstæð stjórn sem fær það mikilvæga verkefni að byggja enn frekar ofan á þann góða árangur sem hefur náðst og þannig skapa raunhæfan langtímavalkost á íslenskum húsnæðismarkaði,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×