Auðunn Blöndal var gestaviðmælandi ásamt Tómasi Steindórssyni í aukaþætti Subway Körfuboltakvöldsins, sem er í umsjón Stefáns Árna Pálssonar.
Þeir félagar voru þar að ræða titilvörn Tindastóls, en liðið varð loks Íslandsmeistari á síðasta tímabili eftir langa bið. Auðunn sagði þeim meðal annars söguna af því þegar hann splæsti flöskuborði á allt Tindastólsliðið eftir að titillinn var í hús.
Hann taldi um það bil helmingslíkur á því að liðinu tækist að endurtaka leikinn, en þáttastjórnandinn greip inn í og sagðist vita nákvæmlega hvernig ætti að fara að því.
Þá mætti Steindi á skjáinn og sagðist viss um það að Pavel Ermolinskii, þjálfari Tindastóls, hafi heyrt áhyggjur hans af þriggja stiga nýtingu liðsins og breytt leikplani sínu í kjölfarið. Það sé því í raun honum að þakka að titillinn skilaði sér norður í Skagafjörð og ekkert því til fyrirstöðu að endurtaka leikinn.
Auðunn tók ekki undir fullyrðingarnar og sagði það eina sína verstu upplifun af körfuboltaleik að horfa á hann með Steinda.
Innslagið allt má sjá í spilaranum hér fyrir neðan: