Viðskipti innlent

Lilja ráðin deildar­stjóri Auð­linda­stýringar HS Orku

Atli Ísleifsson skrifar
Lilja Magnúsdóttir.
Lilja Magnúsdóttir. HS Orka

Lilja Magnúsdóttir hefur tekið við stöðu deildarstjóra Auðlindastýringar HS Orku. Hún var áður yfirforðafræðingur HS Orku og hefur starfað hjá fyrirtækinu frá 2020.

Í tilkynningu segir að Lilja taki við starfinu af Guðjóni Helga Eggertssyni sem hafi gegnt stöðunni um fimm ára skeið. 

„Lilja lauk grunn- og meistaranámi í vélaverkfræði við Háskóla Íslands og doktorsprófi frá orkuverkfræðideild Stanford háskólans í Bandaríkjunum árið 2013. Í doktorsverkefninu rannsakaði Lilja bestu nýtingu jarðhita með því að tengja reiknilíkön við mælingar. Þar þróaði hún aðferð til að meta sprungutengingar á milli borholna með rafleiðni. 

Að loknu doktorsnámi tók Lilja við stöðu nýdoktors við Lawrence Berkeley National Laboratory. Þaðan lá leiðin til Tesla í Kaliforníu þar sem hún starfaði sem yfirverkfræðingur í hönnun og þróun við sólarrafhlöðudeild fyrirtækisins. Árið 2016 hóf Lilja störf við jarðhitarannsóknir með notkun gervigreindar við verkfræðideild Háskóla Íslands. 

Lilja er uppalin í Reykjavík en var búsett í Kaliforníufylki í Bandaríkjunum í 11 ár. Eiginmaður hennar er Gregory Zarski og eiga þau tvö börn. 

HS Orka er þriðji stærsti orkuframleiðandi landsins en fyrirtækið á og rekur tvær jarðvarmavirkjanir, Svartsengi og Reykjanesvirkjun, auk Brúarvirkjunar í Biskupstungum og Fjarðarárvirkjana í Seyðisfirði,“ segir í tilkynningunni. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×