Viðskipti innlent

Samrunaviðræður Eikar og Reita í strand

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Verslunarmiðstöðin Kringlan er á meðal fasteigna í eignasafni Reita.
Verslunarmiðstöðin Kringlan er á meðal fasteigna í eignasafni Reita.

Fasteignafélögin Eik og Reitir hafa hætt viðræðum um mögulegan samruna fasteignafélaganna tveggja. 

Þetta kemur fram í tilkynningu Eikar til Kauphallarinnar, en bæði félögin eru skráð á markað.

Félögin hafa átt í samrunaviðræðum frá því í lok júní. Í miðjum septembermánuði samþykktu hluthafar Eikar að stjórn félagsins væri heimilt að gera samrunasamning við Reiti. Nú hafa viðræðurnar hins vegar strandað.

„Ráðgjafar og sérfróðir aðilar hafa greint eignasöfn beggja félaga og umgjörð mögulegra viðskipta. Í ljósi þeirra upplýsinga og samskipta sem liggja fyrir meta aðilar stöðuna þannig að þeir muni ekki, að óbreyttu, ná sameiginlegri niðurstöðu um virðismat og skiptahlutföll milli félaganna sem væri þess eðlis að stjórn Eikar fasteignafélags væri tilbúin til þess að mæla með við hluthafa sína að teknu tilliti til stöðu félagsins á markaði og ítarlegum samanburði á verðmati leigu- og þróunareigna félaganna,“ segir í tilkynningunni.

Stjórnin muni áfram kanna aðra möguleika til að efla félagið

„Stjórn hyggst, eins og áður hefur komið fram, birta viðbót við greinargerð sína vegna breytinga á valfrjálsu tilboði Regins hf. í allt hlutafé Eikar fasteignafélags eigi síðar en einni viku áður en gildistími tilboðsins rennur út.“

Eik barst yfirtökutilboð frá Reginn hf. í júní en hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort hún geti mælt með því við hluthafa sína að taka breyttu tilboði.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×