Viðskipti innlent

Tap Isavia var 221 milljón á fyrri árs­helmingi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia. 
Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia.  Isavia

Heildar­af­koma Isavia á fyrri árs­helmingi var nei­kvæð um 221 milljón króna saman­borið við já­kvæða af­komu upp á 501 milljón króna fyrir sama tíma­bil í fyrra. Þetta er meðal þess sem fram kemur í til­kynningu frá fé­laginu.

Þar kemur fram að rekstrar­af­koma af sam­stæðu Isa­viu fyrir af­skriftir, fjár­magns­liði og skatta (EBITDA) á fyrri helmingi ársins 2023 hafi verið já­kvæð um 1.777 milljónir króna saman­borið við 968 milljónir króna fyrri sama tíma­bil á síðasta ári. Aukning sem nemur 809 milljónum króna.

Enn fremur kemur fram að tekjur sam­stæðunnar hafi aukist um 4.272 milljónir krónamilli tíma­bili. Þær námu 20.085 milljónum króna. 3,4 milljónir far­þega fóru um Kefla­víkur­flug­völl á fyrstu sex mánuðum ársins.

Rekja nei­kvæð á­hrif til gengis­á­hrifa

Í til­kynningu Isavia segir að lækkun Isavia á heildar­af­komu um 221 milljón króna megi rekja til breyinga á gengis­á­hrifum vegna lang­tíma­lána í er­lendri mynt. Fjár­festingar sam­stæðunnar námu um 8.197 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins og segir Isavia að rekja megi lang­stærsta hlutann, eða um 7.082 milljónir króna til fram­kvæmda á Kefla­víkur­flug­velli.

„Rekstur sam­stæðu Isavia á fyrstu sex mánuðum ársins var nokkuð í takt við okkar eigin væntingar.“ segir Svein­björn Indriða­son, for­stjóri Isavia. „Við höfum eins og önnur fyrir­tæki fundið vel fyrir kostnaðar­hækkunum síðustu missera og erum að róa öllum árum að því að mæta þeim.“

Lang­tíma­á­ætlanir fé­lagsins gera ráð fyrir frekari upp­byggingu á Kefla­víkur­flug­velli. „Á sama tíma og við erum að eiga við kostnaðar­hækkanir þá gera okkar á­ætlanir ráð fyrir á­fram­haldandi vexti í fjölda far­þega sem mun fara um Kefla­víkur­flug­völl“ segir Svein­björn. „Við munum því á­fram leggja á­herslu á upp­byggingu á flug­vellinum á­samt því að styrkja aðra inn­viði fé­lagsins.“

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.