iPhone snjallsímar Apple hafa lengi verið ein helsta tekjulind fyrirtækisins og hafa forsvarsmenn þess vonast til þess að iPhone 15 og þá sérstaklega iPhone 15 Pro, myndi seljast vel og leiða til vaxtar, samkvæmt frétt Wall Street Journal (Áskriftarvefur).
Miðinn segir að nú séu uppi áhyggjur um að laga þurfi vandamálið með hugbúnaðaruppfærslu, sem hægja muni á símunum.
Enn sem komið er, er umfang vandamálsins mjög óljóst og mögulegt að um einungis nokkrar háværar raddir sé að ræða. Kvartanir hafa þó borist víðsvegar að í heiminum, samkvæmt miðlinum 9to5mac.
Það er ekki óeðlilegt að nýir iPhone hitni töluvert fyrsta sólarhringinn eftir að kveikt er á þeim, þar sem síminn er að vinna mikið á bakvið tjöldin. Kvartanirnar undan nýju símunum snúast þó um að þeir hitni of mikið töluvert seinna og jafnvel þó ekki sé verið að láta þá vinna of mikið, þó það virðist sjaldgæfara.
Einn kóreskur maður, sem heldur út YouTube-síðuna BullsLab, heldur því fram að hann hafi notað hitamyndavél til að greina hita iPhone 15 og að einn síminn hafi orðið allt að 47 gráðu heitur. Sá segir mögulegt að símarnir hitni svona mikið sé vegna nýrra og léttari efna í þeim, sem ætlað var að gera símana léttari. Notkun þeirra hafi leitt til þess að þeir hitni meira.
Sérfræðingur sem WSJ vitnar í er sammála því. Mögulega megi einnig rekja vandamálið til nýrrar grindar símanna, sem sé gerð úr títaníum, en það er ekki góður hitaleiðari. Innanbúðarmenn segja að hjá Apple sé verið að skoða að nota nýtt efni í rafrásaspjald næstu kynslóða síma fyrirtækisins svo hægt væri að gera það þynnra og betra í að dreifa hita.
Forbes hefur eftir sama sérfræðingi og WSJ vitnar í að líklegasta lausnin sem forsvarsmenn Apple muni grípa til, feli í sér að nota hugbúnaðaruppfærslu til að hægja á örgjörva símanna.