Viðskipti innlent

Þrír stjórnendur til Borealis Data Center

Jón Þór Stefánsson skrifar
Kristófer Andri Kristinsson, Bergþóra Halldórsdóttir og Blake Elizabeth Greene
Kristófer Andri Kristinsson, Bergþóra Halldórsdóttir og Blake Elizabeth Greene Aðsend

Borealis Data Center hefur ráðið til starfa þrjá nýja stjórnendur. Það eru þau Bergþóra Halldórsdóttir, sem mun stýra skrifstofu forstjóra, Blake E. Greene verður markaðsstjóri Borealis og Kristófer Kristinsson mun leiða vöruþróun fyrirtækisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Fyrirtækið sér um gagnaversþjónustu. Starfsemin tekur meðal annars til hýsingar skýjaþjónustu, rekstur ofurtölva og umgjarðar stafrænna innviða þá segir að fyrirtækið hafi gert erlendum fyrirtækjum kleift að færa tölvurekstur yfir í umhverfisvænni og öruggari hýsingu.

Í tilkynningunni segir að Bergþóra Halldórsdóttir muni bera ábyrgð á samhæfingu verkferla innan fyrirtækisins og framgöngu strategískra verkefna ásamt forstjóra.

Hún stýrði viðskiptaþróun hjá Íslandsstofu og hafði þar umsjón með gerð stefnumótunar stjórnvalda og atvinnulífs fyrir íslenskar útflutningsgreinar. Hún starfaði sem ráðgjafi hjá Samtökum iðnaðarins og var lögmaður Samtaka atvinnulífsins þar sem hún bar meðal annars ábyrgð á alþjóðlegu málefnastarfi samtakanna.

Fram kemur að Blake Elizabeth Greene muni vinna að stefnumótun, samskipta- og kynningarmálum fyrirtækisins á erlendum og innlendum vettvangi. Auk þess muni hún vinna að sameiginlegu alþjóðlegu markaðsstarfi útflutningsgreina á vegum Íslandsstofu.

Blake er með meistarapróf í evrópusamrunafræðum. Hún hefur verið verkefnastjóri hjá Háskólanum í Reykjavík, markaðsstjóri hjá Iceland Travel, markaðsstjóri hjá Greenqloud og forstöðumaður skrifstofu forstjóra hjá Urban-Brookings Tax Policy Center í Washington D.C.

Kristófer Andri Kristinsson mun stýra vöruþróun Borealis og styðja við alþjóðlegt sölu- og markaðsstarf fyrirtækisins og þjónustu við lykilviðskiptavini. Kristófer kemur frá Kerecis þar sem hann hefur undanfarin ár aðstoðað við að uppbyggingu markaðsteymis hjá Kerecis á alþjóðavettvangi.

Hann hefur starfað hjá Porsche, Audi, Volkswagen og Skoda, en hann er viðskipta- og tölvunarfræðingur að mennt.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×