Viðskipti innlent

Segir milljarða sekt koma til vegna sam­særis­kenninga

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hörður Felix Harðarson er lögmaður Samskipa.
Hörður Felix Harðarson er lögmaður Samskipa. Vísir/Vilhelm

Samskip ætla sér að kæra rúmlega fjögurra milljarða króna sekt sem Samkeppniseftirlitið lagði á félagið í gær. Lögmaður Samskipa segir félagið vera sektað fyrir samsæriskenningar sem enginn fótur sé fyrir. 

Í gær var greint frá því að flutningafyrirtækið Samskip hafi verið sektað um 4,2 milljarða króna fyrir brot á samkeppnislögum. Um er að ræða lang stærstu sektina í sögu Samkeppniseftirlitsins. Að mati þess braut Samskip alvarlega af sér með ólögmætu samráði við Eimskip. Þá hafi upplýsingagjöf og gagnaafhending fyrirtækisins við rannsókn málsins verið ófullnægjandi, röng og villandi.

Hörður Felix Harðarson, lögmaður Samskipa, segir sektina ekki í neinum tengslum við efni málsins og fyrri ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins. Þá sé verið að sekta fyrir samsæriskenningar.

„Við eigum mjög erfitt með að skilja hvaðan eftirlitið er að koma í þessu. Við erum búin að vinna mjög mikið í þessu máli undanfarin ár og reyndum strax í upphafi að greina það með ítarlegri yfirferð gagna hvort það væri eitthvað til í þessum kenningum. Niðurstaðan er einfaldlega sú að svo er alls ekki,“ segir Hörður.

Hann segir kenningar eftirlitsins hafa orðið til vegna skjals sem haldlagt var hjá samkeppnisaðilanum, Eimskipi. Enginn hjá Samskipum hafi séð umrætt skjal fyrr en átta árum eftir að rannsókn hófst.

„Þá eru spunnar út einhverjar ályktanir og kenningar um það að þarna hafi orðið eitthvað allsherjarsamráð á milli félaganna tveggja. Fyrir þessu er einfaldlega enginn fótur. Þetta er verkefni framundan, það er að vinda ofan af þessu,“ segir Hörður.

Nú munu Samskip kæra ákvörðunina til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Segir Hörður að náist ekki ásættanleg niðurstaða þar, verði málið tekið alla leið hjá dómstólum.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.