Viðskipti innlent

Hagnaður Regins jókst um 66 prósent

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Regins.
Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Regins. Reginn

Hagnaður fasteignafélagsins Regins jókst um rúm 66 prósent á milli ára en fyrstu sex mánuði ársins nemur hann um 6,1 milljarð króna, samanborið við 3,7 milljarða á sama tíma í fyrra.

Þetta kemur fram í tilkynningu þar sem segir að endurfjármögnun félagsins sé lokið til ársins 2025. Rekstrartekjur Regins námu 6,7 milljörðum króna og er um að ræða 900 milljón króna aukningu á milli ára. Leigutekjur félagsins hækka um 16,5 prósent frá fyrra ári.

„Reksturinn gengur vel og er yfir áætlun á fyrstu sex mánuðum ársins og við sjáum fram á að hann gangi áfram vel á seinni helmingi ársins. Í ljósi þess er tekjuspá hækkuð fyrir árið í heild um 200 milljónir króna og jafnframt er gert ráð fyrir 200 milljóna króna hærri EBITDA á árinu,“ er haft eftir Halldóri Benjamín Þorbergssyni, forstjóra Regins í uppgjörstilkynningu.

„Það er mitt mat að sú fjárfesting sem átt hefur sér stað í lykilkjörnum Regins sé að skila sér í sterku uppgjöri. Þá er komið að vatnaskilum í umbreytingu fasteignasafns Regins eftir tímabil mikilla fjárfestinga sem félagið uppsker nú í formi aukinnar eftirspurnar og raunaukningar leigutekna,“ segir Halldór. 

„Vaxandi umsvif í ferðaþjónustu höfðu jákvæð áhrif á rekstur félagsins á fyrri helmingi ársins, góður gangur var í hagkerfinu og vanskil í lágmarki. Þá er tekjugrunnur Regins afar sterkur en 45 prósent af leigutekjum koma nú frá opinberum aðilum og skráðum fyrirtækjum sem felur í sér lága mótaðilaáhættu fyrir félagið.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×