Viðskipti innlent

For­maður Lækna­fé­lags Ís­lands til Hrafnistu

Atli Ísleifsson skrifar
Steinunn Þórðardóttir.
Steinunn Þórðardóttir. Aðsend

Steinunn Þórðardóttir, sérfræðingur í öldrunar- og lyflækningum, hefur verið ráðin í nýja stöðu framkvæmdastjóra lækninga hjá Hrafnistu frá og með 1. nóvember.

Í tilkynningu kemur fram að Steinunn hafi undanfarin fimm ár gegnt stöðu yfirlæknis heilabilunareiningar Landspítala ásamt því að vera formaður Læknafélags Íslands undanfarin ár. Hún mun áfram sinna því starfi samhliða starfinu á Hrafnistu. 

„Steinunn er jafnframt, svo vitað sé, fyrsti öldrunarlæknirinn með sérþekkingu á heilabilunarsjúkdómum sem ráðinn hefur verið til starfa á hjúkrunarheimili á Íslandi. Ljóst er að hún mun koma með dýrmæta viðbótarþekkingu til Hrafnistu og mun koma að því að efla enn frekar þá þjónustu sem veitt er íbúum og öðrum þjónustuþegum. Hrafnista hefur átt í mjög góðu samstarfi við Heilsuvernd sem þjónustar heimilin með læknisþjónustu og mun það samstarf halda áfram í óbreyttu formi,“ segir í tilkynningunni. 

Haft er eftir Maríu Fjólu Harðardóttur, forstjóra Hrafnistu, að framkvæmdastjóri lækninga muni verða hluti af framkvæmdaráði Hrafnistu og verði góð viðbót við þann sterka hóp í stefnumótun og framtíðarsýn á þjónustu við eldra fólk og aðra sem þiggi eða muni þurfa á þjónustu að halda framtíðinni. 

„Við erum sannfærð um að þessi spennandi nýjung í stjórnendahópi Hrafnistu muni efla enn frekar þá faglegu og öflugu þjónustu sem Hrafnistuheimilin veita nú þegar og gera þeim enn betur kleift að viðhalda því markmiði að vera ávallt leiðandi í þjónustu við aldraða hér á landi,“ segir María Fjóla.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.