Viðskipti innlent

Rebekka og Snorri til Mílu

Máni Snær Þorláksson skrifar
 Rebekka Jóelsdóttir er nýr fjármálastjóri hjá Mílu og Snorri Karlsson er framkvæmdastjóri innviðasviðs fyrirtækisins.
Rebekka Jóelsdóttir er nýr fjármálastjóri hjá Mílu og Snorri Karlsson er framkvæmdastjóri innviðasviðs fyrirtækisins. Aðsend

Míla hefur ráðið til sín tvo nýja stjórnendur. Rebekka Jóelsdóttir er nýr fjármálastjóri og Snorri Karlsson er framkvæmdastjóri innviðasviðs. Meðfram ráðningunum taka þau bæði sæti í framkvæmdastjórn Mílu.

Rebekke mun stýra fjármálasviði Mílu en hún hefur undanfarin fimm ár starfað hjá Marel. Þar stofnaði hún hagdeild Marels og veitti henni forstöðu. Fram kemur í tilkynningu um ráðningarnar að Rebekka hafi víðtæka reynslu af innlendum fjármálamarkaði. 

Hún hafi starfað sem fjárfestingastjóri hjá Framtakssjóði Íslands og hjá fyrirtækjaráðgjöf Arion banka. Rebekka er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og er með MCF gráðu í fjármálum fyrirtækja. Hún veitir fjármálasviði Mílu forstöðu, sem ber ábyrgð á fjármálahlutanum auk sjálfbærni (ESG) og innkaupum.

Snorri kemur til Mílu frá Símanum en hann mun leiða innviðasvið hjá Mílu, nýtt svið innan fyrirtækisins. Hjá Símanum gegndi Snorri stöðu leiðtoga stafrænnar þjónustu. Þar á undan veitti hann forstöðu þjónustu Símans.

Alls hefur Snorri starfað í fjarskiptageiranum í rúma tvo áratugi. Hann er byggingaverkfræðingur frá Háskóla Íslands og með meistaragráðu í verkfræði frá  Kungliga Tekniska Högskolan í Stokkhólmi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×