Viðskipti innlent

Náttúran reyndist Skúla vel eftir fall Wow air

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Skúli Mogensen er þakklátur fyrir tíma sinn í Hvammsvík.
Skúli Mogensen er þakklátur fyrir tíma sinn í Hvammsvík. Vísir/Vilhelm

Sjó­böðin við Hvamms­vík eru eins árs og verður boðið upp á dag­skrá um helgina í til­efni af því. Eig­andi þeirra Skúli Mogen­sen segist mæla með úti­vist og líkam­legri vinnu fyrir alla sem upp­lifi hvers­kyns á­föll en sjálfur segist hann nánast þekkja hvern stein í Hvamms­víkinni eftir fram­kvæmdir þar.

Skúli var gestur í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Þar var hann í til­efni af því að sjó­böðin í Hvamms­vík eru nú eins árs. Heljarinnar dag­skrá verður í boði við böðin um helgina, meðal annars sjósunds-og kajak­kennsla og þá mætir Mugi­son og heldur tón­leika laugar­dags-og sunnu­dags­kvöld. Einungis hundrað manns komast í lónið á hverjum tíma og þarf því að panta fyrirfram.

Skúli segist þakk­látur fyrir árið sem er liðið. Hann segir það hafa verið for­réttindi að fá að eyða tíma upp í sveit og kveðst þakk­látur fjöl­skyldu sinni og starfs­fólki eftir árið sem sjó­böðin hafa verið opin.

Þakk­látur

„Ég er bara rosa­lega heppinn, hvað þetta varðar. Mér finnst þetta ofsa­lega gaman. Ég er rosa­lega þakk­látur, við höfum fengið ó­trú­lega góð við­brögð og frá­bærar ein­kunnir á öllum miðlum, ó­trú­lega um­fjöllun er­lendis sem maður átti ekki von á því oft tekur tíma að stimpla sig inn.“

Skúli segir Ís­lendinga ekki síst hafa verið dug­lega að heim­sækja sjó­böðin. Það sé alltaf upp­lifun að koma þangað. Hann segir mikil­vægt hve mikla ást­ríðu hann hafi haft fyrir verk­efninu, hann og fjöl­skyldan hafi sjálf unnið í verk­efninu.

„Við erum sjálf búin að vinna í þessu dag og nótt. Ég segi stundum að ég þekki öll grjótin með nafni því ég var þarna sjálfur að bera þau sjálfur með frá­bærum hópi af fólki sem hjálpaði okkur að láta þetta verða að veru­leika. Starfs­fólkið núna á allar þakkir skilið.“

Þá var Skúli spurður að því í Bítinu hvort það hafi verið and­leg úr­vinnsla fyrir hann að fara í svona verk­efni, að bera grjót og vera úti í náttúrunni eftir að hafa lent í því að vera skot­spónn margra eftir fall Wow Air árið 2019.

„Ég myndi mæla með því alla daga, við hvers­lags á­fall, það hefur reynst mér frá­bær­lega, að fara út í náttúruna. Smá líkam­leg vinna, al­vöru vinna skulum við segja. Ég held að það geri öllum gott. Ég ætla ekki að segja að það sé allra meina bót en þér líður bara vel eftir að hafa verið úti, fá súr­efni beint í æð, finna það að þú ert búinn að taka á því að­eins. Auð­vitað er hægt að fara í líkams­ræktina líka sem ég geri vissu­lega og vera inn í sal en það er allt allt öðru­vísi að vera út í náttúrunni.“

Fjallað var um opnun sjóbaðanna í Hvammsvík í kvöldfréttum Stöðvar 2 fyrir ári:


Fleiri fréttir

Sjá meira


×