Viðskipti innlent

Níu milljónir ferna drukknar af Kókómjólk árlega

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Kókómjólkin hefur alltaf verið framleidd í mjólkurbúinu á Selfossi eða í 50 ár.
Kókómjólkin hefur alltaf verið framleidd í mjólkurbúinu á Selfossi eða í 50 ár. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Því er núna fagnað að Kókómjólkin á fimmtíu ára afmæli en hún hefur alltaf verið framleidd í mjólkurbúinu á Selfossi. Í dag eru um níu milljónir ferna drukknar af Kókómjólk á ári en Kókómjólkin er eitt dýrmætasta vörumerki Mjólkursamsölunnar í dag.

Það er mikið um allskonar heimsóknir í starfsstöð Mjólkursamsölunnar á Selfossi og þá er oftast boðið upp á Kókómjólk, ekki síst þegar börn eru á ferðinni. Nú er búið að merkja fernurnar sérstaklega með Klóa í tilefni af 50 ára afmælinu. Öll framleiðslan í þessi fimmtíu ár hefur farið fram í mjólkurbúinu á Selfossi.

„Þetta er að mínu mati eitt verðmætasta vörumerki Mjólkursamsölunnar af því að salan í Kókómjólkinni er mjög góð og hefur verið stabíl í öll þessi ár. Við erum með traustan og góðan kúnnahóp, sem elskar Kókómjólkina og til að nefna þá er framleiðslan um þrjár milljónir lítra í ári í núverandi mynd, sem gefur okkur níu milljónir eininga,“ segir Ágúst Þór Jónsson mjólkurbússtjóri MS á Selfossi.

Hvað er það við Kókómjólkina, sem er svona heillandi ?

„Það er náttúrulega það að hún er mjög stabíl og góð vara, hún er bragðgóð og holl, orka í henni og gefur kraft, þannig að það þarf ekkert að tíunda meira um það,“ bætir Ágúst við.

Klói verður í miklu afmælisskapi í sumar og ætlar að fara um landið og gleðja fólk á öllum aldri.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Umbúðirnar hafa breyst heilmikið á þessari hálfu öld. Þær voru í hyrnum fyrstu tvö árin og svo kom Branda og 1990 kom Klói til sögunnar en hann er eitt af einkennismerkjum Kókómjólkurinnar og ætlar hann að vera á ferðinni um allt land í sumar til að gleðja unga sem aldna en það þýðir ekkert að tala við hann því hann kann ekki að tala.

En á Kókómjólkin eftir að lifa í fimmtíu ár í viðbót?

„Heldur betur ef við höldum áfram að vera með svona úrvalsmjólk eins og við erum með þá mun hún lifa fimmtíu ár í viðbót,“ segir Halldóra Arnardóttir, markaðs- og vöruflokkastjóri ferskvara hjá MS.

Ágúst Þór, mjólkurbússtjóri á Selfossi og Halldóra, sem er markaðs- og vöruflokkastjóri ferskvara hjá MSMagnús Hlynur Hreiðarsson
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×