Viðskipti innlent

Öl­gerðin vinnur að því að fá vottun sem hin­segin vænn vinnu­staður

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Mynd af Daníel E. Arnarssyni, framkvæmdastjóra Samtakanna 78 og Andra Þór Guðmundssyni, forstjóra Ölgerðarinnar eftir að þeir höfðu skrifað undir viljayfirlýsinguna.
Mynd af Daníel E. Arnarssyni, framkvæmdastjóra Samtakanna 78 og Andra Þór Guðmundssyni, forstjóra Ölgerðarinnar eftir að þeir höfðu skrifað undir viljayfirlýsinguna. Aðsend

Forstjóri Ölgerðarinnar er stoltur af því að fyrirtækið sé það fyrsta hér á landi, sem vinnur að því að fá vottun sem hinsegin vænn vinnustaður.

Ölgerðin og Samtökin 78 skrifuðu nýlega undir viljayfirlýsingu þar sem stefnt er að því að Ölgerðin fái vottun sem hinsegin vænn vinnustaður, fyrst fyrirtækja á Íslandi. Um tilraunaverkefni er að ræða en í því felst meðal annars fræðsla til starfsfólks, kannanir verða framkvæmdar, úttekt á fyrirtækinu með hinseginleika í huga og loks formleg vottun af hálfu Samtakanna 78 fyrir árslok 2023.

Andri Þór Guðmundsson er forstjóri Ölgerðarinnar.

„Já á mannamáli snýst þetta um hjá okkur í Ölgerðinni að búa til og hlúa að menningu, sem er fordómalaus og styður að allir eigi jafna möguleika. Við erum að leggja mikla áherslu á fjölbreytileika hjá okkur. Einsleitur hópur starfsmanna mun ekki taka bestu ákvarðanirnar, það verður ekki besta fyrirtækið í framtíðinni,“ segir Andri Þór.

Hjá Ölgerðinni eru 375 stöðugildi starfsmanna. En er mikið af hinsegin starfsfólki þar?

Hjá Ölgerðinni eru 375 stöðugildi starfsmanna.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Það þekki ég ekkert en án efa, það hlýtur að vera en ég skipti mér auðvitað ekkert af því,“ segir Andri Þór.

Þannig að þið eruð ekkert að spá í það?

„Nei, nei, það skiptir ekki máli. Aðalmálið er það að hér sé fordómalaus menning og að öllum líði vel í vinnunni hvernig sem þeir eru.“

Hvað heldur þú að þessi samningur gefi ykkur?

„Fyrst og fremst víðsýni og kannski meiri samkennd og kannski gerir þetta okkur, sem fyrirtæki að betri þjóðfélagsþegni ef við getum orðað það þannig,“ segir Andri Þór.

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, sem er stoltur af nýju viljayfirlýsingunni við Samtökin 78.Magnús Hlynur Hreiðarsson
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×