Viðskipti erlent

Fram­kvæmda­stjóri Dia­geo er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Sir Ivan Menezes gekk til liðs við Diageo árið 1997.
Sir Ivan Menezes gekk til liðs við Diageo árið 1997. AP

Sir Ivan Menezes, framkvæmdastjóri Diageo, stærsta áfengisfyrirtækis heims, er látinn, 63 ára að aldri.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu, sem send var út í gær, segir að Menezes hafi andast í faðmi fjölskyldu sinnar eftir stutt veikindi. Fyrr í vikunni hafði verið greint fra því að Menezes væri á sjúkrahúsi vegna magasárs. Til stóð að hann myndi láta af störfum sem framkvæmdastjóri í lok mánaðar.

Diageo framleiðir um tvö hundruð tegundir af áfengi og selur í um 180 löndum. Meðal vörumerkja sem Diageo framleiðir má nefna Johnnie Walker vískí, Bailey's, Guinness-bjór, Smirnoff vodka, auk þess að eiga stóran hlut í Moët Hennessy.

Í frétt BBC segir að Menezes hafi verið breskur og bandarískur ríkisborgari en fæðst í indversku borginni Pune.

Javier Ferrán, stjórnarformaður Diageo, segir að um gríðarlega sorglegan dag sé að ræða, enda hafi Menezes verið einn besti leiðtogi sinnar kynslóðar. „Ivan var á staðnum þegar Diageo var stofnað fyrir rúmum 25 árum, mótaði Diageo sem varð að einu skilvirkasta, traustasta og virtasta fyrirtæki heims,“ segir Ferrán.

Menezes gekk til liðs við Diageo árið 1997 þegar félagið var stofnað með sameiningu bruggrisans Guinness og Grand Metropolitan-samsteypunnar. Hann gegndi fjölmörgum stjórnunarstöðum innan fyrirtækisins áður en hann tók við stöðu aðalframkvæmdastjóra árið 2013.

Áður en Menezes hóf störf hjá Diageo starfaði hann hjá Nestlé.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.