Körfubolti

Þáðu boð tveimur árum eftir að hafa dregið lið sitt úr keppni

Sindri Sverrisson skrifar
Snæfell endaði í 3. sæti 1. deildar á nýafstaðinni leiktíð og féllu svo úr leik gegn Þór Akureyri í undanúrslitum.
Snæfell endaði í 3. sæti 1. deildar á nýafstaðinni leiktíð og féllu svo úr leik gegn Þór Akureyri í undanúrslitum. @kkd.snaefells/Summi

Kvennalið Snæfells verður á ný með í efstu deild kvenna í körfubolta, Subway-deildinni, á næstu leiktíð eftir að hafa þegið boð þess efnis.

Snæfellingum gafst kostur á að snúa aftur í deildina vegna fjölgunar liða í deildinni úr átta í tíu, og vegna þess að ÍR afþakkaði sæti þar.

ÍR-ingar höfðu endað í áttunda og neðsta sæti Subway-deildarinnar á síðustu leiktíð en hefðu mátt spila þar áfram á næstu leiktíð vegna fjölgunarinnar. Snæfell endaði aftur á móti í 3. sæti í 1. deildinni, á eftir Stjörnunni og Þór Akureyri sem komust upp í Subway-deildina, og var því næst í röðinni á eftir ÍR til að fá þar sæti.

Snæfell spilaði síðast í efstu deild veturinn 2020-21 og endaði í næstneðsta sæti en dró lið sitt svo um sumarið úr keppni fyrir næstu leiktíð í deildinni.

Félagið hefur hins vegar náð afar eftirtektarverðum árangri í gegnum tíðina því Snæfell varð til að mynda Íslandsmeistari þrjú ár í röð á árunum 2014-16.

Eins og fyrr segir skipa tíu lið Subway-deild kvenna á næstu leiktíð og nú er orðið ljóst að það verða Valur, Keflavík, Haukar, Njarðvík, Grindavík, Fjölnir, Breiðablik, Stjarnan, Þór Akureyri og Snæfell.

Átta efstu liðin fara í úrslitakeppni með því fyrirkomulagi sem nú þekkist. 

Neðsta lið deildarinnar fellur beint í 1. deild en sæti þess lið tekur sigurvegari 1. deilar. Liðið sem hafnar í næst neðsta sæti úrvalsdeildar mun leika umspilsleiki við liðin í 2. - 4. sæti 1. deildar um sæti í úrvalsdeild tímabilið á eftir.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.