Viðskipti innlent

Í­búða­verð virðist stöðugt en sveiflur í meðal­kaup­verði sér­býla

Atli Ísleifsson skrifar
Í skýrslunni segir að í apríl hafi 13,0 prósent íbúða á höfuðborgarsvæðinu selst yfir ásettu verði samanborið við 13,6 prósent í mars.
Í skýrslunni segir að í apríl hafi 13,0 prósent íbúða á höfuðborgarsvæðinu selst yfir ásettu verði samanborið við 13,6 prósent í mars. Vísir/Arnar

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,8 prósent á milli mánaða í apríl og hefur því hækkað um 2,6 prósent á síðustu þremur mánuðum. Virðist íbúðaverð vera nokkuð stöðugt.

Frá þessu segir í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þar kemur fram að íbúðir í fjölbýli hafi hækkað um 0,5 prósent en sérbýli um 1,7 prósent. Þriggja mánaða hækkun sérbýlis mælist því nú 4,9 prósent.

„Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins hækkaði íbúðaverð um 0,7% á milli mánaða og þar er þriggja mánaða breytingin 6,2% og annars staðar á landinu hækkaði íbúðaverð um 1,4% á milli mánaða og hefur hækkað um 1,7% á þremur mánuðum,“ segir í skýrslunni.

662 útgefnir kaupsamningar

Útgefnir kaupsamningar um íbúðarhúsnæði voru 662 á landinu í síðasta mánuði miðað við árstíðaleiðréttar tölur. Hafi þeir verið jafnmargir í febrúar en í mars hafi þeir verið nokkru fleiri, eða 680 talsins.

Í skýrslunni segir að í apríl hafi 13,0 prósent íbúða á höfuðborgarsvæðinu selst yfir ásettu verði samanborið við 13,6 prósent í mars.

Um meðalkaupverð sérbýla segir að það hafi sveiflast mikið undanfarið. Þannig hafi það verið um 118 milljónir króna í apríl samanborið við 106 milljónir króna í febrúar en það hafði einnig verið 118 milljónir í september síðastliðnum.

Greiðslu­byrði gæti hækk­að um átta prósent

Ennfremur segir í skýrslunni að undanfarið hafi óverðtryggðir íbúðalánavextir hækkað jafn mikið og stýrivextir og því megi búast við að þeir verði á bilinu 10,25 til 10,59 prósent hjá viðskiptabönkunum eftir að þeir bregðast við stýrivaxtahækkuninni frá því í síðustu viku. Seðlabankinn hækkaði þar stýrivextina um 1,25 prósentustig, úr 7,5 prósent í 8,75 prósent.

„Gangi það eftir má búast við að greiðslubyrði af 40. m.kr. óverðtryggðu láni til 40 ára verði 326.200 kr. í stað 303.300 kr. nú sem gerir 7,9% hækkun. Í byrjun júní 2022 var greiðslubyrði af slíku láni 203.000 kr. Greiðslubyrði af verðtryggðu láni til 25 ára er 185.100 eða 43% lægri. Af verðtryggðu láni til 40 ára er greiðslubyrði 157.800 kr. sem er nærri 58% lægra en á 40 ára óverðtryggðu láni,“ segir í skýrslunni.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.