Körfubolti

Voru innan við sekúndu frá úr­slitum: Þurfa nú að fara í leik sjö gegn Boston

Aron Guðmundsson skrifar
Hreint út sagt lygilegar lokasekúndur í leik sex milli Miami Heat og Boston Celtics
Hreint út sagt lygilegar lokasekúndur í leik sex milli Miami Heat og Boston Celtics Vísir/Getty

Boston Celtics vann í nótt frækinn sigur á Miami Heat í sjötta leik liðanna í úr­­slitum austur­­deildar NBA-deildarinnar. Miami komst fljótt í stöðuna 3-0 í ein­vígi liðanna en hefur nú glutrað niður þeirri for­ystu og þarf nú að fara til Boston í leik sjö sem mun skera úr um hvort liðið fer í úr­slita­ein­vígi NBA-deildarinnar.

Boðið var upp á æsispennandi leik í nótt sem endaði að lokum með eins stigs sigri Boston, 104-103. Derrick White reyndist hetjan í þeim leik en honum tókst að ná sóknarfrákasti eftir misheppnað sniðskot Marcus Smart og koma boltanum ofan í körfuna. 

Hreint út sagt lygileg atburðarás og hefur Boston nú tekist að brúa bilið sem Miami Heat hafði í einvíginu.

Jayson Tatum fór fyrir Boston Celtics hvað stigaskorun varðar en hann setti niður 31 stig. Auk þess tók hann tólf fráköst og gaf fimm stoðsendingar. 

Þá fór Jaylen Brown einnig mikinn í leiknum, setti niður 26 stig, tók tíu fráköst og gaf þrjár stoðsendingar. 

Liðin munu mætast í leik sjö aðfaranótt þriðjudags en sigurvegari einvígisins mætir Denver Nuggets í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar.

 

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.