Viðskipti innlent

Bjóða upp á flug milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bogi Nils forstjóri Icelandair ásamt ferðamönnum á Reykjavíkurflugvelli í vetur. Í sex vikur í október og nóvember getur fólk á leið til og frá landinu keypt sér flug á milli Akureyri og Keflavíkurflugvelli.
Bogi Nils forstjóri Icelandair ásamt ferðamönnum á Reykjavíkurflugvelli í vetur. Í sex vikur í október og nóvember getur fólk á leið til og frá landinu keypt sér flug á milli Akureyri og Keflavíkurflugvelli. Vísir/Vilhelm

Icelandair ætlar að bjóða upp á flug á milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar í tengslum við millilandaflug sitt frá 15. október til 30. nóvember. Flogið verður þrisvar í viku.

Fyrr í dag kom fram að easyJet ætlaði að fljúga á milli Akureyrar og Gatwick í London í vetur. Nú bætist við flug frá Akureyri til Keflavíkur þrisvar í viku; frá Akureyri til Keflavíkur, á mánudögum, fimmtudögum og laugardögum klukkan 5:50 að morgni og þrisvar sinnum í viku frá Keflavík til Akureyrar á miðvikudögum klukkan 21:20 og föstudögum og sunnudögum klukkan 17:15. 

„Þar sem flugið er alþjóðatenging fer öryggisleit fram á Akureyrarflugvelli og einungis verður hægt að bóka það samhliða millilandaflugi með Icelandair. Vegna styttri afgreiðslutíma í öryggisleit og ferðatíma á flugvöll munu íbúar Akureyrar og nágrennis og ferðamenn þaðan geta lagt af stað á flugvöllinn á svipuðum tíma og íbúar höfuðborgarsvæðisins,“ segir í tilkynningu.

Ákveðið hafi verið að hefja flugið utan háannar þar sem gistirými á Norðurlandi sé af skornum skammti yfir sumartímann. Markmið Icelandair til framtíðar sé að efla alþjóðatenginguna við Akureyri og byggja hana upp í takt við eftirspurn.

„Tengitímar eru mjög þægilegir og með þessari þjónustu bjóðum við Norðlendingum að stytta ferðatímann umtalsvert til fjölda áfangastaða okkar í Evrópu. Tengingunni er einnig ætlað að stuðla að betri dreifingu ferðamanna um landið og við munum nýta alþjóðlegt sölunet okkar til þess að byggja upp eftirspurn eftir flugi til Akureyrar á mörkuðum okkar erlendis,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.


Tengdar fréttir

EasyJet flýgur frá Akureyri til London í vetur

Opnað hefur verið fyrir bókanir í flugferðir með easyJet á milli London og Akureyrar í vetur. Fyrsta flugferðin verður 31. október en flogið verður tvisvar í viku, á þriðjudögum og laugardögum, út mars 2024.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×