Matur

Tekur við sem þjálfari Kokka­lands­liðsins

Atli Ísleifsson skrifar
Snædís Xyza Mae Ocampo matreiðslumaður.
Snædís Xyza Mae Ocampo matreiðslumaður. Aðsend

Snædís Xyza Mae Ocampo matreiðslumaður hefur verið valin þjálfari Íslenska Kokkalandsliðsins sem Klúbbur matreiðslumeistara heldur utan um og rekur.

Í tilkynningu segir að Snædís hafi útskrifast sem matreiðslumaður árið 2018 og hafi alla tíð verið tengd keppnismatreiðslu. 

„Hún var fyrirliði í landsliðinu sem fór á heimsmeistaramótið 2018 og var einnig fyrirliði í liðinu sem var í þriðja sæti á Ólympíuleikunum í Stutgart 2020. Snædís hefur tekið þátt í keppninni um Kokk ársins og vann nýlega keppnina Nordic Challange sem haldin var á Akureyri.

Snædís hóf nám sitt á Apótekinu, þó áhuginn hafi í raun vaknað þegar hún starfaði á Sushi Samba. Náminu lauk hún svo á Hótel Sögu. Aðspurð sagðist Snædís þó ekki hafa gengið með kokkinn í maganum og ætlaði í raun aldrei að læra fagið en þegar sú ákvörðun var síðar tekin þá stefndi hún jafnhliða að því að vera ein að þeim bestu! Með það í huga varð hún fljótlega einn af aðstoðarmönnum landsliðsins og síðar einn af aðstoðarmönnunum á Ólympíuleiknum 2016. Í dag starfar Snædís sem yfirmatreiðslumaður á ION Hótel,“ segir í tilkynningunni. 

Haft er eftir Snædísi að hún vilji vera fyrirmynd fyrir alla sem vinni með henni og vonist hún til að þeim finnist þau geta sótt til hennar ráð bæði nú og í framtíðinni. „Ein af mínum stoltustu stundum var þegar ég gekk upp á svið til að fá afhent brons verðlaun á Ólympíuleikunum 2020 komin fjóra mánuði á leið. Ég á þá ósk að landsliðsfólkið okkar eigi eftir að upplifa þessa sömu tilfinningu og við ætlum okkar á pall 2024 og auðvitað stefnum við á gull,” segir Snædís. 


Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.