Viðskipti innlent

Spá því að vextir hækki um heila prósentu

Máni Snær Þorláksson skrifar
Gangi spá Landsbankans eftir verður um að ræða þrettándu vaxtahækkunina í röð.
Gangi spá Landsbankans eftir verður um að ræða þrettándu vaxtahækkunina í röð. Vísir/Vilhelm

Hagfræðideild Landsbankans spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækki stýrivexti um eitt prósentustig í næstu viku. Ef spá Landsbankans gengur eftir verða stýrivextir hærri en þeir hafa verið í rúm þrettán ár.

Í næstu viku mun peningastefnunefnd koma saman og ákveða hvort vextir verði hækkaðir. Fari sem svo að nefndin ákveði að hækka vextina verður um að ræða þrettándu vaxtahækkunina í röð. Hagfræðideild Landsbankans spáir því að vextir verði hækkaðir um eitt prósentustig en telur þó líklegt að nefndin ræði hækkun á bilinu 0,75 upp í 1,25 prósentustig.

„Hækkun um 1,0 prósentustig myndi lyfta meginvöxtum upp í 8,5% en svo háir hafa þeir ekki verið síðan í bröttu vaxtalækkunarferli snemma árs 2010,“ segir í spá deildarinnar.

Þá er bent á að eftir vaxtaákvörðunina í næstu viku mun sú næsta ekki eiga sér stað fyrr en í síðari hluta ágúst. Það auki líkurnar enn fremur á að peningastefnunefnd ákveði að taka stór skref og hækka um heilt prósentustig.

Deildin telur víst að peningastefnunefnd líti síversnandi verðbólguhorfur alvarlegum augum. Verðbólgan hafi reynst þrálátari en búist var við. Ársverðbólgan jókst um 0,1 prósentustig í apríl síðastliðnum þvert á spá Landsbankans. Hagfræðideild bankans hafði spáð fyrir að verðbólgan myndi hjaðna niður í 9,5 prósent en í stað þess fór hún upp í 9,9 prósent. 

„Spáskekkjan skýrðist meðal annars af því að íbúðaverð á landsbyggðinni hækkaði og við það hækkaði reiknuð húsaleiga meira en við höfðum gert ráð fyrir. Þá höfðum við spáð því að bílar lækkuðu í verði, en þeir lækkuðu minna en við héldum.“

Þá segir hagfræðideild bankans að verðbólgan sé ekki aðeins mikil og þrálát, hún hafi einnig orðið almennari á síðustu mánuðum. Þegar talað er um að verðbólgan sé almennari er átt við að sífellt fleiri undirliðir hafa hækkað verulega í verði.

„Í fyrstu var hún mestmegnis drifin áfram af hækkandi húsnæðisverði en eftir því sem ró hefur færst yfir fasteignamarkaðinn hafa aðrir undirliðir neysluverðsvísitölunnar tekið við sér, ekki síst verð á þjónustu og innfluttum vörum.“


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×