Viðskipti innlent

Lands­virkjun greiðir 19,5 milljarða í arð

Árni Sæberg skrifar
Hörður Arnarson er forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson er forstjóri Landsvirkjunar. Stöð 2/Egill

Hagnaður Landsvirkjunar fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 14,8 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi, en var 10,7 milljarðar á sama tímabili í fyrra og hækkar því um 40,6 prósent milli ára. Aðalfundur félagsins samþykkti að greiða eiganda sínum íslenska ríkinu um 19,5 milljarða króna í arð.

Þetta kemur fram í árshlutareikningi fyrir fyrsta ársfjórðung ársins, sem gefinn var út í dag.

Þar segir að hagnaður eftir fjármagnsliði hafi verið 12,5 milljarðar króna á tímabilinu en 15,6 milljarðar á sama tíma í fyrra. Rekstrartekjur hafi numið 23,9 milljörðum og hækkað um 19,3 prósent milli ára.

Þá hafi nettó skuldir lækkað um 18,6 milljarða króna frá áramótum og hafi í lok mars verið 96,7 milljarðar króna. Loks segir að handbært fé frá rekstri hafi numið 19,6 milljörðum króna, sem sé 42,9 prósent hækkun frá sama tímabili árið áður.

Afkoman með miklum ágætum

í fréttatilkynningu um árshlutareikninginn er haft eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, að afkoma fyrsta ársfjórðungs hafi verið með miklum ágætum.

„Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði, sem endurspeglar afkomu grunnrekstrar Landsvirkjunar, jókst um ríflega 40 prósent frá sama fjórðungi ársins 2022. Rekstrartekjur jukust um tæplega fimmtung frá fyrra ári, sem skýrist af aukinni raforkusölu, háu raforkuverði til stórnotenda og tekjum vegna innleystra áhættuvarna. Á sama tíma lækkaði rekstrarkostnaður fyrirtækisins um 8 prósent frá fyrra ári. Fjármunamyndunin var einnig mjög sterk á fyrsta ársfjórðungi, en handbært fé frá rekstri hækkaði á fjórðungnum um 43 prósent frá fyrra ári og var tæpir 20 milljarðar,“ er haft eftir honum.

Þá hafi rekstur aflstöðva gengið vel á ársfjórðungnum og orkuvinnsla aukist um fimm prósent frá fyrra ári. 

„Á tímabilinu þurfti þó ítrekað að takmarka afhendingu á skerðanlegri orku til gagnavera og fiskmjölsframleiðenda vegna þess að raforkukerfi Landsvirkjunar er nú rekið nálægt hámarks afkastagetu. Landsvirkjun vinnur nú hörðum höndum að því að afla tilskilinna leyfa til uppbyggingar raforkuvinnslu til að uppfylla þá orkuþörf sem augljóslega er í samfélaginu, bæði almennt og vegna orkuskipta.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×