Handbolti

Geta bæði endað átján ára bið í hreinum úrslitaleik í Eyjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sunna Jónsdóttir og Ragnheiður Sveinsdóttir í baráttunni í einum leik liðanna í þessari úrslitakeppni en þær fara fyrir sínum liðum í baráttu og vilja.
Sunna Jónsdóttir og Ragnheiður Sveinsdóttir í baráttunni í einum leik liðanna í þessari úrslitakeppni en þær fara fyrir sínum liðum í baráttu og vilja. Vísir/Hulda Margrét

ÍBV og Haukar spila í dag úrslitaleik um sæti í lokaúrslitum Olís deildar kvenna í handbolta og fer leikurinn fram úti í Vestmannaeyjum.

Liðin hafa unnið tvo leiki hvort í þessu einvígi og tveir af leikjunum hafa farið alla leið í framlengingu. Spennan hefur því verið mikil og verður væntanlega ekkert minni í þessum leik í dag.

ÍBV vann heimaleikina með sjö mörkum (29-22) og einu marki (20-19) en Haukakonur unnu sína heimaleiki með einu mark (25-24) og þremur mörkum (29-26) en þeir fóru báðir í framlengingu.

Oddaleikurinn í dag hefst klukkan 18.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 5. Útsending hefst klukkan 17.45 og eftir leikinn mun Seinni bylgjan gera allt upp.

Bæði liðin geta þarna endað mjög langa bið eftir sæti í úrslitaeinvígi kvenna.

Það eru átján ár síðan að bæði liðin komust svo langt en þau hafa ekki komist í úrslitin síðan þau mættust í úrslitaeinvíginu vorið 2005.

Haukar urðu Íslandsmeistarar vorið 2005 eftir 3-0 sigur á ÍBV í úrslitaeinvíginu en Eyjakonur urðu síðast Íslandsmeistarar árið eftir en þá fór ekki fram nein úrslitakeppni.

Frá því að úrslitakeppnin var aftur tekin upp voruð 2009 þá hafa aðeins fimm félög komist í úrslitaeinvígi kvenna eða Valur, Fram, Stjarnan, Grótta og KA/Þór.

Frá þeim tíma hafa Eyjakonur tapað átta sinnum í undanúrslitum þar af í oddaleik á móti KA/Þór fyrir tveimur árum. ÍBV-liðið hefur dottið út í undanúrslitum í síðustu fjórum úrslitakeppnum.

Haukakonur hafa tapað sex sinnum í röð í undanúrslitum síðan þær komust síðast alla leið fyrir átján árum.

  • Félög í lokaúrslitum kvenna í handbolta frá 2009 til 2023:
  • Valur 9 sinnum (2023, 2022, 2021, 2019, 2018, 2014, 2012, 2011, 2010
  • Fram 9 sinnum (2022, 2019, 2018, 2017, 2013, 2012, 2011, 2010, 2009)
  • Stjarnan 6 sinnum (2017, 2016, 2015, 2014, 2013, 2009)
  • Grótta 2 sinnum (2016, 2015
  • KA/Þór 1 sinni (2021)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×