Viðskipti innlent

Öllu starfs­fólki Niceair sagt upp

Árni Sæberg skrifar
Niceair var stofnað snemma á síðasta ári og fór jómfrúarflug sitt frá Akureyri til Kaupmannahafnar í júní síðastliðnum. Heimahöfn félagsins er á Akureyri.
Niceair var stofnað snemma á síðasta ári og fór jómfrúarflug sitt frá Akureyri til Kaupmannahafnar í júní síðastliðnum. Heimahöfn félagsins er á Akureyri. Vísir7Tryggvi

Öllum sextán starfsmönnum Niceair hefur verið sagt upp störfum og félagið mun ekki hefja flugið aftur í sumar.

Þetta hefur Mbl eftir Þor­vald­i Lúðvíki Sig­ur­jóns­syni, fram­kvæmda­stjóra Niceair. Í byrjun apríl tilkynnti félagið að hlé hefði verið gert á starfsemi þess vegna þess að það hefði misst einu flugvél sína.

„Við höfum haldið úti reglulegu áætlunarflugi milli Norðurlands og Kaupmannahafnar og Tenerife síðan í júní á [síðasta] ári með 71 prósent sætanýtingu. Við erum búin að sýna fram á að þessi þjónusta er mjög þörf og heimamarkaðurinn hefur reynst meiri og öflugri en vonir stóðu til. Á þessu tímabili hefur veður sjaldnast haft áhrif, en 2 prósent flugferða okkar voru með einhvers konar frávik. Flug um Akureyrarflugvöll reyndist ekki vera vandamál um hávetur og var lent og tekið á loft í marglitum viðvörunum á tímabilinu. Þetta er sorgleg niðurstaða fyrir alla. Mest hörmum við þau óþægindi sem af þessu hljótast fyrir okkar viðskiptavini,” var haft eftir Þorvaldi í tilkynningu.

Í frétt Mbl er haft eftir honum að stjórn og hluthafar félagsins séu að meta stöðuna, hvenær og á hvaða forsendum rekstur félagsins geti hafist á ný. „Það er auðvitað mik­il óvissa uppi og hvenær það myndi geta gerst, og þá hverj­ir myndu vera um borð,“ er haft eftir honum.

Þá segir að búið sé að endurgreiða öllum þeim sem keyptu flugfar með greiðslukorti og að það muni skýrast á næstunni  hvernig endurgreiðslum til þeirra sem greiddu með öðrum hætti verði háttað.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×