Körfubolti

Tindastóll dregur 11. flokk úr úrslitakeppni vegna samskiptaleysis

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Skilaboðin sem Vestri fékk frá Tindastóli í upphafi tímabils þar sem Vestra-menn fá leyfi fyrir því að nota einn eldri leikmann.
Skilaboðin sem Vestri fékk frá Tindastóli í upphafi tímabils þar sem Vestra-menn fá leyfi fyrir því að nota einn eldri leikmann. Samsett

Körfuknattleiksdeild Tindastóls hefur ákveðið að draga lið sitt úr úrslitakeppni Íslandsmótsins í 11. flokki karla í körfubolta vegna samskiptaleysis milli aðila innan félagsins.

Greint var frá því hér á Vísi fyrr í kvöld að liði Tindastóls í 11. flokki karla í körfubolta hafi verið dæmdir tveir sigrar gegn Vestra í aldursflokknum sökum þess að Vestri hafi notað ólöglegan leikmann í leikjunum.

Þórir Guðmundsson, formaður barna- og unglingaráðs körfuknattleiksdeildar Vestra, sagði frá því á Facebook-síðu sinni fyrr í kvöld að félagið hefði gert „heiðursmannasamkomulag“ við öll önnur lið í deildinni um að fá að nota leikmanninn sem var orðinn of gamall til að spila í 11. flokki. Leikmaðurinn hafi verið orðinn einn eftir í sínum árgangi og því hafi félagið ákveðið að fara þá leið að óska eftir því að hann fengi að spila með yngri strákum.

Dagur Þór Baldvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls, ritaði svo færslu á Facebook-síðu Tindastóls í kvöld þar sem greint er frá því að Tindastóll muni draga lið sitt úr úrslitakeppni 2. deildar flokksins. Þar segir að ástæðan sé sú að vegna samskiptaleysis á milli aðila innan félagsins hafi verið gerðar athugasemdir við liðsskipan Vestra með þeim afleiðingum að Tindastóli var dæmdur sigur.

Sigrarnir sem Tindastóli voru dæmdir gerðu það að verkum að liðið stökk upp fyrir Vestra í töflunni og í úrslitakeppnissæti á kostnað Vestra.

„Tindastóll biðst velvirðingar á þessum mistökum og óskar Vestra velgengni í undanúrslitum mótsins,“ segir að lokum í tilkynningu Tindastóls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×