Handbolti

Teitur og félagar fengu skell og eru úr leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Teitur Örn Einarsson skoraði tvö mörk fyrir Flensburg í kvöld.
Teitur Örn Einarsson skoraði tvö mörk fyrir Flensburg í kvöld. Frank Molter/picture alliance via Getty Images

Teitur Örn Einarsson og félagar hans í Flensburg eru úr leik í Evrópudeild karla í handbolta eftir átta marka tap gegn Granollers í átta liða úrslitum í kvöld, 27-35.

Teitur og félagar unnu fyrri leik liðanna með eins marks mun á útivelli og því var lítið sem skildi liðin að fyrir leik kvöldsins.

Gestirnir í Granollers náðu þó ágætis tökum á leiknum snemma í fyrri hálfleik og liðið leiddi með fjórum mörkum þegar gengið var til búningsherbergja, staðan 12-16.

Ekki batnaði ástandið fyrir heimamenn í Flensburg í síðari hálfleik og gestirnir juku forskot sitt jafnt og þétt. Granollers náðu fyrst tíu marka forskoti í stöðunni 21-31 og stuttu síðar náði liðið mest tólf marka forskoti. Heimamenn voru aldrei nálægt því að brúa það bil og niðurstaðan varð átta marka sigur Granollers, 27-35.

Granollers eru því á leið í undanúrslit Evrópudeildarinnar ásamt Füchse Berlin, Montpellier og liðinu sem sló Valsmenn úr leik, Göppingen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×