Handbolti

Íslendingalið Kadetten úr leik eftir grátlegt tap

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði sex mörk fyrir Kadetten í kvöld.
Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði sex mörk fyrir Kadetten í kvöld. Kadetten

Íslendingalið Kadetten Schaffhausen, undir stjórn Aðalsteins Eyjólfssonar og með Óðinn Þór Ríkharðsson innanborðs, er úr leik í Evrópudeildinni í handbolta eftir sex marka tap gegn Füchse Berlin í kvöld, 30-24.

Íslendingaliðið vann virkilega sterkan fjögurra marka sigur í fyrri leik liðanna, 37-33, þar sem Óðinn Þór Ríkharðsson fór gjörsamlega á kostum.

Mikið jafnræði var með liðunum framan af leik í kvöld, en gestirnir í Kadetten voru með eins til tveggja marka forskot fyrri hluta fyrri hálfleiks. Heimamenn náðu þó að snúa taflinu við áður en hálfleiknum lauk og Refirnir leiddu með tveimur mörkum þegar liðin gengu til búningsherbergja, staðan 17-15.

Heimamenn í Füchse Berlin náðu þó betri tökum á leiknum snemma í síðari hálfleik og fljótlega var munurinn á liðunum kominn í fjögur mörk og staðan í einvíginu því jöfn. Heimamönnum gekk þó brösulega að ná upp fimm marka forskotinu sem liðið þurfti til að komast áfram, en það tókst þó í stöðunni 28-23 þegar um fimm mínútur voru til leiksloka.

Gestirnir í Kadetten fóru hins vegar illa að ráði sínu á lokamínútum leiksins og voru það því að lokum heimamenn sem tryggðu sér sex marka sigur, 30-24. Niðurstaðan í einvíginu varð því sú að Fücshe Berlin er á leið í undanúrslit Evrópudeildarinnar eftir samanlagðan tveggja marka sigur, 63-61, en Kadetten Schaffhausen er úr leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×