Umræðan

Fjöl­miðl­ar þurf­a á­skrift­ar­tekj­ur, ekki rík­is­styrk­i

Helgi Vífill Júlíusson skrifar

Margir hafa dregið rangan lærdóm af gjaldþroti Fréttablaðsins. Lausnin er einföld og margreynd. Það mun hvorki bjarga fjölmiðlum að ríkisstyrkja þá í meira mæli né taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði. Rekstrarvandi fjölmiðla verður einungis leystur með vitundarvakningu á meðal landsmanna. Fólk þarf að borga fyrir fréttir. Sú leið er þrautreynd. Á blómaskeiði fjölmiðla var greitt fyrir þjónustuna.

Lengst af í fjölmiðlasögunni hefur fólk orðið að borga fyrir fréttaflutning. Dagblöðin bárust annars ekki inn um lúguna, blaðasalinn lét blaðið ekki af hendi án greiðslu. Í árdaga Internetsins vandist fólk á að fréttir og flest annað á þeim vettvangi væri ókeypis. Það var óheillaþróun. Afkoma fjölmiðla sýnir að þeir verði að fá áskriftartekjur, auglýsingasala er ekki nóg. Neysluvenjur fólks á Netinu hafa líka breyst. Fólk hefur vanist því að greiða áskrift að margþættri þjónustu – sem er af hinu góða. Það ætti því að geta greitt fyrir innlendar fréttir líka.

Rekstrarumhverfi fjölmiðla mun ekki taka stakkaskiptum ef Ríkisútvarpið hverfur af auglýsingamarkaði. Það er ekki á vísan að róa að auglýsingafé RÚV, einhverjir tveir milljarðar króna, muni streyma svo til óskert til annarra miðla. Um það eru margir auglýsendur og auglýsingafólk sammála. Allar líkur eru á að auglýsendur muni til að mynda framleiða færri sjónvarpsauglýsingar ef ekki er hægt að birta þær á RÚV. Framleiðslukostnaður við birtinguna, miðað við dekkun, er annars of hár, að þeirra mati.

Það breytir því þó ekki að það þarf að draga úr umsvifum RÚV, bæði á auglýsingamarkaði og umfangi. Það verður þó ekki mikilvægasta púslið til að bæta rekstur einkafjölmiðla. Verulegar áskriftartekjur munu hins vegar skipta sköpum. Hafa ber í huga, að ókeypis fréttaflutningur RÚV meðal annars á internetinu, gerir öðrum fjölmiðlum erfiðara fyrir að læsa sínum fréttum og rukka eðlilegt gjald. Umsvif Ríkisútvarpsins eru því öllum einkamiðlum fjötur um fót. Starfsfólk RÚV ætti að hafa það í huga fremur en að býsnast yfir því að stjórnmálamenn vilji ekki moka fé í fjölmiðla. Vinna þeirra er hluti af vandanum.

Ríkisstuðningur við fjölmiðla er ekki lausnin heldur viðheldur hann þeirri tálsýn að lesendur þurfa ekki að greiða fyrir þjónustuna. Allar hugmyndir um ríkisstuðning eru liður í því að fría þá landsmenn ábyrgð sem hafa áhuga á fregnum af samfélaginu en kjósa að greiða ekki fyrir þær. Fréttir geta ekki verið ókeypis og eiga ekki vera það. Að sama skapi er það óheilbrigt að fjölmiðlar, sem eiga að veita stjórnmálafólki aðhald, þurfi að stóla á að hópur viðmælenda þeirra láti nægilegt fé af hendi rakna úr opinberum fjárhirslum til að hægt sé að greiða laun og aðrar nauðsynjar. Það gengur ekki.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×