Handbolti

Viktor Gísli og fé­lagar í Nan­tes úr leik eftir tap í víta­keppni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Viktor Gísli í leik kvöldsins.
Viktor Gísli í leik kvöldsins. Twitter@HBCNantes

Franska handknattleiksfélagið Nantes féll í kvöld úr leik í umspilinu um sæti í 8-liða úrslitum í Meistaradeildar Evrópu. Tapið verður ekki súrara en einvígið fór alla leið í vítakeppni. Því miður fór Wisła Płock með sigur af hólmi þar eftir að skora úr öllum fimm vítaköstum sínum.

Fyrri leik liðanna lauk með 32-32 jafntefli og því var allt undir í kvöld. Heimamenn í Nantes byrjuðu leikinn af krafti og voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 14-11. Varnarleikur beggja liða var til fyrirmyndar á meðan sóknarleikurinn var stirður.

Gestirnir frá Póllandi voru hins vegar sterkari aðilinn í síðari hálfleik og voru tveimur mörkum yfir þegar aðeins 50 sekúndur lifðu leiks. Nantes tókst að skora tvisvar áður en flautan gall og staðan þegar leiknum lauk 27-27.

Þar sem báðir leikirnir enduðu með jafntefli var gripið til vítakeppni, þeirrar fyrstu síðan 2010. Þar reyndust gestirnir sterkari aðilinn en öll þeirra fimm vítaköst enduðu í netinu á meðan Kauldi Odriozola Yeregui brenndi af í liði Nantes.

Þýðir það að Wisła Płock er óvænt komið áfram þar sem Nantes endaði í 3. sæti B-riðils á meðan Płock endaði í 6. sæti B-riðils.

Viktor Gísli Hallgrímsson átti ekki sinn besta leik í marki Nantes en átti þó þessa mögnuðu vörslu hér að neðan. Þá stóð hann í marki Nantes í vítakeppninni. Samt ákvað þjálfari Nantes að nota alla þrjá markverði sína í kvöld en þeir Ivan Pesic og Manuel Gaspar fengu einnig að spreyta sig.

Ásamt Wisła Płock eru Kiel, Kielce, Barcelona, París Saint-Germain og Magdeburg komin áfram í 8-liða úrslit. Á morgun kemur í ljós hvort Íslendingaliðin Veszprém og Álaborg komist einnig áfram.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.