Handbolti

„Ef við tökum úrslitin út fyrir sviga er bara gott að enda þetta svona“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Alexander Örn Júlíusson í leik með Valsmönnum.
Alexander Örn Júlíusson í leik með Valsmönnum. Vísir/Bára Dröfn

„Auðvitað getum við gengið stoltir frá þessu verkefni,“ sagði Alexander Örn Júlíusson, fyrirliði Íslandsmeistara Vals, eftir að liðið féll úr leik í Evrópudeildinni í handbolta gegn þýska liðinu Göppingen í kvöld.

„Ég get alveg viðurkennt það að okkur hefur gengið töluvert betur en við gerðum ráð fyrir. Við áttum alveg eins von á því að við myndum tapa öllum leikjunum, en við náðum þessum fína árangri og komumst í 16-liða úrslit. Og auðvitað er dálítið fallegt að enda þetta hérna í Þýskalandi á móti Bundesligu-liði fyrir fullri höll og í hörkustemningu.“

„Leiðinlegt samt sem áður hvernig þessi rimma fór því við hefðum viljað sýna betri frammistöðu í fyrri leiknum og í dag líka. En með góðri frammistöðu í fyrri leiknum hefði allt getað gerst.“

Í þýska liðinu eru tveir tvöllvaxnir línumenn sem Valsmenn áttu oft og tíðum í erfiðleikum með að hemja.

„Þetta eru auðvitað bara gæðaleikmenn í öllum stöðum og eins og þú segir mjög erfitt að glíma við þessa línumenn. Þeir eru talsvert stærri og sterkari en við og á köflum þá liggur við að þetta sé ekki sanngjarn leikur. En auðvitað bara gaman að fá að glíma við þá allra bestu í sportinu og við þurftum frekar oft að horfast í augu við það að  vera bara dálítið eftir á.“

„Eins og ég segi var bara ótrúlega gaman og fallegt að enda þetta hér. Hörkustemning og mikil læti þannig að ef við tökum úrslitin út fyrir sviga þá er bara gott að enda þetta svona.“

Viðtalið við Alexander í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Alexander Júlíusson eftir tapið gegn GöppingenFleiri fréttir

Sjá meira


×