Handbolti

Kveðja „íslenska múrinn“ með miklum trega en Elín fer til Álaborgar

Sindri Sverrisson skrifar
Elín Jóna Þorsteinsdóttir fagnar í vináttulandsleik gegn B-liði Noregs á dögunum.
Elín Jóna Þorsteinsdóttir fagnar í vináttulandsleik gegn B-liði Noregs á dögunum. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Elín Jóna Þorsteinsdóttir, landsliðsmarkvörður í handbolta, hefur ákveðið að söðla um í Danmörku þrátt fyrir mikinn áhuga Ringköbing á að halda henni í sínum röðum.

Elín Jóna mun í sumar ganga í raðir EH Aalborg og hún verður þar með liðsfélagi Andreu Jacobsen sem er að klára sína fyrstu leiktíð með liðinu, og á sinn þátt í því að Álaborgarliðið er á góðri leið með að komast upp í dönsku úrvalsdeildina.

Elín Jóna hefur þótt spila afar vel fyrir Ringköbing og átti ríkan þátt í að halda liðinu uppi í úrvalsdeildinni í fyrra, þegar liðið var nýliði. Ljóst er að þjálfarinn Jesper Holmris mun sjá mjög á eftir henni:

„Frá og með næstu leiktíð verður Ringköbing Håndbold því miður án Elínar Þorsteinsdóttur og við erum rosalega leið yfir því að okkur skyldi ekki takast að halda í þennan sterka íslenska landsliðsmarkvörð,“ segir Holmris við heimasiðu Ringköbing þar sem sagt er frá því að „íslenski múrinn“ verði kvaddur í sumar.

Holmris segir Elínu hafa reynst liðinu afar vel þegar hún kom inn með sína reynslu í lið sem var nýliði í deildinni, fyrir tveimur árum, og að hún hafi einnig spilað afar vel í vetur eftir að hafa jafnað sig af meiðslum.

„Elín er stórkostlegur markvörður og áreiðanlegur aftasti hlekkur fyrir Ringköbing, og við hrósum happi yfir að hafa hana í liðinu aðeins lengur. Klúbburinn og ég óskum henni alls hins besta og við munum fylgjast áfram með henni í félags- og landsliði,“ sagði Holmris.

Sjálf kvaðst Elín hafa verið hæstánægð með árin sín tvö hjá Ringköbing en að eftir vandlega íhugun hefði hún ákveðið að breyta til, svo að lífið utan vallar gengi betur upp en danskur kærasti hennar er búsettur í Álaborg.

Aalborg er efst í 1. deildinni en aðeins tveimur stigum á undan Bjerringbro fyrir hálfgerðan úrslitaleik liðanna um næstu helgi, um öruggt sæti í dönsku úrvalsdeildinni. Liðin í 2. og 3. sæti fara í umspil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×