Innherji

Stærstu hlut­hafar Bláa lónsins vilja ekki selja sig niður við skráningu á markað

Hörður Ægisson skrifar
Grímur Sæmundsen, stærsti einstaki hluthafi félagsins, er forstjóri og stofnandi Bláa lónsins.
Grímur Sæmundsen, stærsti einstaki hluthafi félagsins, er forstjóri og stofnandi Bláa lónsins.

Stærstu hluthafar Bláa lónsins eru lítt áhugasamir um að losa um eignarhluti sína í félaginu í tengslum við áformaða skráningu á hlutabréfamarkað síðar á árinu og því horfir ferðaþjónustufyrirtækið fremur til þess að fara þá leið að auka hlutafé sitt. Erfiðar markaðsaðstæður réðu mestu um að hætt hefur verið við að stefna að skráningu félagsins núna á vormánuðum, að sögn stjórnarformanns Bláa lónsins.

Innherji greindi fyrst frá skráningaráformum Bláa lónsins í nóvember í fyrra en þá var áætlað að stærstu hluthafarnir myndu selja frá sér samanlagt í kringum fjórðungshlut samhliða því að félagið færi í Kauphöllina. Helstu hluthafar Bláa lónsins eru Grímur Sæmundsen, forstjóri og stofnandi fyrirtækisins, allir helstu lífeyrissjóðir landsins og fjárfestingarfélagið Stoðir.

Eftir samtöl við hluthafana er hins vegar núna ljóst að ekki er hljómgrunnur á meðal þeirra um að fara þá leið, að því er kom fram í ávarpi Úlfars Steindórssonar, stjórnarformanns félagsins, á hluthafafundi sem fór fram síðastliðinn föstudag.

„Hluthafar eru ekki sammála þessari leið og í raun mjög ánægjulegt að heyra að margir hverjir vilja frekar bæta við sig en selja frá sér. Má því frekar gera ráð fyrir að við förum þá leið að auka hlutfé í Bláa Lóninu þegar að skráningu kemur,“ sagði Úlfar. Þá nefndi hann að samráð yrði haft við stærstu hluthafa um þessa framvindu og að boðað yrði til sérstaks hlutafundar til að óska eftir heimild um að ráðast í hlutafjáraukningu, verði það niðurstaðan.

Eigið fé Bláa lónsins stóð í rúmlega 74 milljónum evra í árslok 2022 og var eiginfjárhlutfall félagsins um 43 prósent.

Bláa lónið stendur núna að uppbyggingu að Fjallaböðunum í Þjórsárdal í gegnum dótturfélagið sitt Íslenskar heilsulindir en um er að ræða meðal annars baðstað og 40 herberga hótel. Fyrsta skóflustungan var tekin í nóvember í fyrra og er áætlaður kostnaður verkefnisins um 6 til 8 milljarðar. Þá hefur Bláa lónið sömuleiðis leitt uppbyggingu að nýrri aðstöðu í Kerlingafjöllum þar sem opna á hótel og veitingastað síðar á þessu ári.

Stjórnarformaður Bláa lónsins staðfesti við Innherja fyrir helgi að félagið hefði horfið frá fyrri áformum sínum um að ráðast í skráningu núna á vormánuðum heldur væri talið skynsamlega að miða við næstkomandi haust.

Verulegur viðsnúningur varð á rekstir Bláa lónsins í fyrra. 

Fram kom í ávarpi Úlfars á hluthafafundinum að þrátt fyrir að undirbúningur að skráningu hafi gengið eftir áætlun þá hefðu ýmsar ástæður valdið því að ákveðið var að bíða haustsins. 

„Vegur þar þungt að á þeim tíma vitum við niðurstöðu úr rekstri sumarsins sem eins og allir vita eru okkar sterkustu tekjumánuðir. Við erum þá ekki að selja væntingar heldur árangur. Hinn þátturinn sem vegur töluvert þyngra er að markaðsaðstæður eru ekki góðar um þessar mundir eins og öllum má vera ljóst,“ sagði hann.

Landsbankinn, viðskiptabanki Bláa lónsins, og Fossar fjárfestingabanki voru fengnir sem ráðgjafar félagsins við undirbúning að útboði og skráningu í Kauphöllina. Hlutverk Fossa er einkum að kanna eftirspurn erlendra fjárfestingarsjóða á að koma að félaginu samhliða skráningu á markað en slíkir sjóðir hafa sýnt Bláa lóninu talsverðan áhuga um nokkurt skeið.

Í dag eru flugfélögin tvö – Icelandair og Play – einu ferðaþjónustufyrirtækin sem eru skráð á hlutabréfamarkað. Íslandshótel, stærsta hótelkeðja landsins, hafði áður gefið út að félagið stefndi að skráningu í Kauphöllina fyrir árslok 2022 en áformin voru sett á ís. Þá hefur einnig verið horfið frá skráningu Arctic Adventures á þessu ári samhliða eigendabreytingum á félaginu, eins og Innherji hefur áður sagt frá.

Síðustu stóru viðskipti með hluti í Bláa lóninu voru síðsumars árið 2021 þegar Stoðir og hópur lífeyrissjóða í gegnum samlagshlutafélagið Blávarma – í aðskildum viðskiptum með skömmu millibili – keyptu samanlagt rúmlega tólf prósenta hlut í félaginu sem verðmat það á liðlega 60 milljarða. Væntingar eru um að verðmiðinn á Bláa lóninu hafi hækkað nokkuð frá þeim tíma samhliða hraðri endurreisn ferðaþjónustunnar hér á landi eftir faraldurinn.

Er það rúmlega fjórföld sú upphæð sem stjórnvöld veita árlega til uppbyggingar innviða og náttúruverndar á ferðamannastöðum víðs vegar um landið. Slíkt verður að teljast umhugsunarvert.

Bláa lónið, sem var lokað frá október 2020 til júní 2021, tapaði um 4,8 milljónum evra á árinu 2021. Reksturinn gekk hins vegar vonum framar eftir að það fór að starfa á fullum afköstum þegar öllum sóttvarnarráðstöfum var aflétt á vormánuðum síðasta árs.

Tekjur Bláa lónsins, sem starfrækir meðal annars fimm stjörnu lúxushótelið Retreat, jukust um 132 prósent í fyrra og námu 112 milljónum evra. EBITDA-hagnaðurinn var 26 milljónir evra, borið saman við aðeins 2 milljónir evra árið 2021, og þá skilaði félagið um 13 milljóna evra hagnaði á liðnu ári.

Í ávarpi sínu á hluthafafundinum nefndi Úlfar að skattspor Bláa lóns, sem felur í sér alla greidda skatta og gjöld til ríkis og sveitafélaga, hefði numið 3,7 milljörðum króna á síðasta ári þegar hann gagnrýndi litla aðkomu ríkisins við uppbyggingu í ferðaþjónustu. „Er það rúmlega fjórföld sú upphæð sem stjórnvöld veita árlega til uppbyggingar innviða og náttúruverndar á ferðamannastöðum víðs vegar um landið. Slíkt verður að teljast umhugsunarvert,“ sagði stjórnarformaðurinn. 

Lífeyrissjóðirnir eignuðust fyrst 30 prósenta hlut í Bláa lóninu vorið 2019 þegar þeir keyptu eignarhlutinn af HS Orku en í þeim viðskiptum var ferðaþjónustufyrirtækið metið á 50 milljarða króna. 

Stærsti hluthafi Bláa lónsins, með 39,6 prósenta hlut, er samlagshlutafélagið Hvatning en stærsti eigandi þess með 60 prósenta hlut er eignarhaldsfélagið Kólfur, sem Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins fer með forræði yfir, á meðan framtakssjóður í rekstri Landsbréfa heldur hins vegar á tæplega 40 prósenta hlut.


Tengdar fréttir

Bláa lónið setur stefnuna á Kauphöllina í byrjun næsta árs

Bláa lónið, eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins, vinnur nú að undirbúningi að skráningu félagsins á hlutabréfamarkað sem það áformar að geti orðið að veruleika á fyrri hluta næsta árs. Tvö innlend fjármálafyrirtæki hafa verið fengin sem ráðgjafar Bláa lónsins við skráningarferlið þar sem til stendur að bjóða hluti í félaginu til sölu. Fyrirtækið var verðmetið á um 60 milljarða í síðustu stóru viðskiptum með bréf í félaginu fyrir meira en ári.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×