Handbolti

Aron, Bjarki Már og Óðinn Þór allir markahæstir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Óðinn Þór var magnaður í kvöld.
Óðinn Þór var magnaður í kvöld. Kadetten

Landsliðsmennirnir Aron Pálmarsson, Bjarki Már Elísson og Óðinn Þór Ríkharðsson áttu mjög góða leiki fyrir félagslið sín í kvöld. Voru þeir allir markahæstir í góðum sigrum.

Aron Pálmarsson átti frábæran leik í liði Álaborgar þegar liðið lagði Mors-Thy með átta mörkum í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld. Aðeins munaði einu marki á liðunum í hálfleik en Álaborg stakk af í síðari hálfleik.

Aron var markahæstur með 7 mörk ásamt því að gefa 3 stoðsendingar í góðum sigri, lokatölur 29-21. Með sigrinum lyftir Álaborg sér á toppinn með 39 stig að loknum 23 leikjum. Það er þó ekki langt í næsta lið en GOG er í 2. sæti með jafn mörg stig.

Bjarki Már átti einnig mjög góðan leik þegar Veszprém vann níu marka útisigur á Gyongyosi í ungversku úrvalsdeildinni, lokatölur 29-38. Bjarki Már skoraði 9 mörk úr vinstra horninu hjá Veszprém sem er á toppi deildarinnar en naumlega þó.

Bjarki Már og félagar eru enn með fullt hús stiga að loknum 18 leikjum. Pick Szeged er hins vegar með jafn mörg stig eftir að hafa leikið leik meira.

Í Sviss átti Óðinn Þór frábæran leik í liði Kadetten sem vann Amitica Zürich með 11 marka mun í undanúrslitum bikarkeppninnar þar í landi, lokatölur 38-27. Óðinn Þór gerði sér lítið fyrir og skoraði 14 mörk úr aðeins 15 skotum.

Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari Kadetten og þá er Ólafur Andrés Guðmundsson leikmaður Zürich en hann lék ekki með liðinu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×