Handbolti

Óðinn skoraði fallegasta mark riðlakeppninnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson hefur raðað inn mörkum fyrir Kadetten.
Óðinn Þór Ríkharðsson hefur raðað inn mörkum fyrir Kadetten. Kadetten

Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði fallegasta mark riðlakeppninnar í Evrópudeildinni í handbolta. Mark Óðins kom beint úr hornkasti.

Það var opinber Twitter-reikningur Evrópudeildarinnar sem birti lista yfir fimm fallegustu mörk riðlakeppninnar, en við Íslendingar eigum tvo fulltrúa á listanum. Óðinn á sem áður segir fallegasta markið, en Magnús Óli Magnússon, leikmaður Vals, kemst einnig á lista.

Mark Óðins stóð þó upp úr því hann skoraði beint úr hornkasti þegar lið hans, Kadetten Schaffhausen, var einu marki undir og aðeins fimm mínútur voru til leiksloka. Í raun er ekki einu sinni hægt að segja að markvörður Benfica hafi verið illa staðsettur, en á einhvern ótrúlegan hátt tókst Óðni að finna glufu á nærstönginni og troða boltanum í netið. Óðinn og félagar unnu að lokum nauman eins marks sigur í leiknum, 27-28.

Mark Magnúsar er einnig afar glæsilegt, en það skoraði hann í öruggum sigri Valsmanna gegn Benidorm í Origo-höllinni. Magnús leikur þá skemmtilega á varnarmenn gestanna áður en hann leggur boltann snyrtilega yfir höfuð markvarðarins.

Sjón er þó sögu ríkari og hægt er að sjá mörk þeirra Magnúsar og Óðins, ásamt hinum mörkunum þremur á topp fimm listanum, í Twitter-færslunni hér fyrir neðan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×