Handbolti

„Ber það með sér að finnast ógeðslega gaman að spila vörn“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stiven Tobar Valencia fagnar með Elliða Snæ Viðarssyni.
Stiven Tobar Valencia fagnar með Elliða Snæ Viðarssyni. vísir/hulda margrét

Framganga Stivens Tobar Valencia í vörn íslenska handboltalandsliðsins í leiknum gegn Tékklandi var meðal þess sem var til umræðu í Handkastinu.

Stiven spilaði seinni hálfleikinn í leiknum gegn Tékkum í gær. Hann skoraði tvö mörk, sín fyrstu fyrir landsliðið, og var öflugur í vörninni. Íslendingar unnu leikinn örugglega, 28-19.

Arnar Daði Arnarsson fékk fyrrverandi landsliðsmennina Ingimund Ingimundarson og Einar Örn Jónsson til að ræða landsleikinn í Handkastinu. Þeir voru báðir mjög hrifnir af frammistöðu Stivens.

„Hann er ógeðslega góður í þessari stöðu, nautsterkur og fljótur. Honum finnst þetta líka svo gaman. Hann ber það með sér að finnast ógeðslega gaman að spila vörn sem er mjög öflugt afl að hafa,“ sagði Ingimundur.

„Svo er hann öskufljótur fram þó það hafi ekki skilað sér í hraðaupphlaupum í dag [í gær]. Hann á eftir að nýtast landsliðinu gríðarlega vel, sérstaklega ef við förum aðeins aftar með vörnina, þá skiptir svo miklu máli að vera með bakverði sem geta þétt pakkann.“

Í viðtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2 á dögunum sagðist Stiven njóta þess að spila vörn og leggur mikla rækt við þann þátt leiksins.

„Hann skiptir mig mjög miklu máli. Mér finnst það koma mér meira inn í leikinn frekar en að standa bara í horninu og hlaupa fram og til baka og vera í einhverju píptesti. Það er gott að taka vörnina líka. Ef maður skítur upp á bak í sókninni getur maður bakkað sig upp í vörninni,“ sagði Stiven.

 

Hlusta má á Handkastið í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×